Deila

Vinsælustu raftækin í ár koma á óvart

Fréttatíminn hafði samband við nokkrar af raftækjaverslunum bæjarins til að komast að því hvað landinn er að kaupa í hörðu jólapakkana þetta árið. Sum tæki eru löngu orðin klassíkerar á meðan önnur eru óvæntir hástökkvarar, eins og blandarinn, sodastreamtækið og Sous Vide hitatækið.

Hástökkvari ársins

Íslendingar hafa alltaf verið hrifnir af rafmagnstækjum sem eiga að ýta undir heilbrigðari lífsstíl og kemur því kannski ekki á óvart að blandari og heilsuúr séu meðal vinsælustu tækjanna þetta árið. Blandarar seljast grimmt í öllum heimsins litum og merkjum í öllum vinsælustu verslunum landsins og segir Óttar Örn Sigurbergsson, innkaupastjóri hjá Elko, hann klárlega vera hástökkvara ársins. Verð á blöndurum er jafn misjafnt og þeir eru margir, frá 15.000 og upp í 40.000 krónur.standalone_1175x1290

Finndu barnið þitt

Auglýsing

Sala á heilsu- og snjallúrum hefur aukist jafn og þétt síðustu tvö ár en þau hafa aldrei selst jafn vel og þetta árið. Úrin eru til í öllum stærðum og gerðum og kosta frá 8-75.000 krónur en í ár eru snjallúr fyrir börn sérstaklega vinsæl. Barnaúrin eru með innbyggðu staðsetningartæki, sos-hnappi og aðeins er hægt að hringja í nokkur leyfileg númer.

garmin_vivofit_2_group_shot

Allir geta verið kokkar

„Þetta tæki hefur verið þekkt á veitingastöðum í mörg ár en kom til almennings í fyrra og er að springa út núna. Við vorum vel birg fyrir törnina en salan var svo mikil að við urðum að fljúga inn með hraði einni sendingu í lokin sem er líka við það að seljast upp,“ segir Hlíðar Þór Finnsson, framkvæmdastjóri Heimilistækja. Varan sem um ræðir er Sous Vide hitatækið sem sett er í pott með vatni til að hægelda og fá jafna eldun á steikur eða fisk. Vinsælasta tækið kostar 18.000 kr.

16310176_extra1

Snúrulaus jól

Ferðahátalar og heyrnatæki seljast eins og heitar lummur í flestum raftækjaverslunum bæjarins, og eru bluetooth-hátalarar langvinsælastir.

lifestyle-image_-jbl_charge3_winterproof-1

Meira gos og minna plast

Eftir að Sodatream auglýsingin með Hafþóri Júlíusi Björnssyni, eða Fjallinu, var birt um allan heim hefur sala á tækjunum margfaldast hérlendis og erlendis. Auglýsingaherferðin leggur áherslu á að minnka plastnotkun með því að gera sitt eigið gosvatn en auk þess leggur fyrirtækið áherslu á hollustu gosvatnsins en ekki líkindi með sykurdrykkjum líkt og gert var á níunda áratugnum. Hlíðar Þór, framkvæmdastjóri Heimilistækja, segir Sodastreamið hafa tekið gríðarlegan kipp fyrir jólin, tækin séu að seljast upp í öllum litum, þökk sé auglýsingunni.

 

1116516_fpx
Óvæntar vinsældir

Eftir að hafa þurft að þola geisladiskinn í nokkur ár er fólk farið að leita aftur á náðir plötunnar. Það eru ekki lengur bara sérvitrir grúskarar sem vilja setja tónlist undir nálina því plötuspilarar hafa tekið óvæntan sölukipp þetta árið, sala á þeim hefur til dæmis tvöfaldast í Elko frá því í fyrra.

 

crosleycruiserportableturntable

Gott fyrir þreytta unglinga

Dagsbirtulampinn kom á markaðinn fyrir ekki svo löngu. Vinsældir hans hafa aukist jafnt og þétt síðustu ár en lampinn hefur aldrei verið vinsælli en þetta árið. Lampinn er þekkt lausn fyrir þá sem vilja létta geðið yfir dimmasta tíma ársins og þá sem eiga erfitt með að komast fram úr á morgnana. Samkvæmt heimildum Fréttatímans eru það helst foreldrar sem eiga í vandræðum með síþreytta unglinga sem leita lampann uppi.

hf3510_01-u1p-global-001

Klassíkerar

Playstation er gríðarlega vinsæl gjöf en vinsældirnar koma verslunarfólki ekki á óvart enda verið ein vinsælasta jólagjöfin í nokkuð mörg ár. Eða eins og einn viðmælandi okkar sagði; „Playstationtölva er klassíker, það er bara þannig.“ Verð á Playstation 4 tölvu er um 50.000 kr.
Sala á símum er alltaf mikil en eykst gríðarlega í desember og er orðin að öðrum klassíker í harða pakkann.

 

121220092755-playstation-3-slim

Jóladagskráin í nýju tæki

Sjónvörpin mokast úr verslunum í ár eins og alltaf fyrir jólin. Elko gerði könnun á viðskiptavinum í nóvember þar sem í ljós kom að tæp 40% vildu nýtt sjónvarp í jólagjöf en fast á hæla þess komu símar og leikjatölvur.
Verslunarmenn segja fólk almennt vera að fara í stærri og stærri skjái og eru til að mynda flestir 65 tommu skjáir uppseldir í Heimilistækjum. „Sjónvarp er það sem fólk óskar sér þó það sé nú ekki það sem það endilega fær, en það eru margir sem vilja sjá jóladagskrána í nýju tæki,“ segir Óttar Örn Sigurbergsson, innkaupastjóri Elko.

plsmamplapla

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.