Deila

Yfir 600 krakkar keppa í Skólahreysti

Skólahreysti – hreystikeppni grunnskólanna – hófst í byrjun vikunnar. Keppnin er nú haldin í þrettánda sinn og taka 115 grunnskólar af öllu landinu þátt.

„Það hefur verið leiðarljós keppninnar frá upphafi að hvetja börn og unglinga um allt land til að taka þátt í alhliða íþróttaupplifun. Skólahreysti snýst ekki bara um að sigra eða vera bestur heldur að þroska andlegt og líkamlegt atgervi samhliða því að efla félagsleg samskipti kennara, nemenda og foreldra,“ segja hjónin Andrés Guðmundsson og Lára B. Helgadóttir, stofnendur Skólahreysti.

Skólahreysti er nú haldin í þrettánda sinn en fyrsta Skólahreystimótið var haldið vorið 2005. Fyrsta undankeppnin í ár var haldin í íþróttahúsinu í Garðabæ í byrjun vikunnar en undankeppninni lýkur á Egilsstöðum í byrjun apríl. Undankeppnirnar eru tíu talsins og eru þær svæðisbundnar.

Fyrsta undankeppnin í Skólahreysti 2017 fór fram í íþróttahúsinu í Garðabæ á þriðjudag. Myndir/Hari
Fyrsta undankeppnin í Skólahreysti 2017 fór fram í íþróttahúsinu í Garðabæ á þriðjudag. Myndir/Hari

Vel yfir 600 krakkar keppa fyrir hönd skóla sinna og nokkur þúsund krakkar eru virkir í litríkum stuðningsliðum. Fjölmargir nemendur taka þátt í valáföngum um Skólahreysti en um 70 skólar bjóða upp á slíka áfanga. 115 grunnskólar af öllu landinu taka þátt í ár.

Auglýsing

Þættir um undankeppnina verða sýndir á RÚV í mars og apríl. Úrslitakeppni þeirra tólf skóla sem ná bestum árangri verður í Laugardalshöll miðvikudaginn 26. apríl í beinni útsendingu á RÚV.

Meðal þeirra greina sem keppt er í í Skólahreysti er hreystigreip.
Meðal þeirra greina sem keppt er í í Skólahreysti er hreystigreip.

Eins og þeir sem fylgst hafa með þáttum um keppnina undanfarin ár vita er Skólahreysti liðakeppni milli grunnskóla landsins. Í hverju liði eru tveir strákar og tvær stelpur sem öll þurfa að vera nemendur í 9. og/eða 10. bekk. Keppt er í fimm keppnisgreinum:
• Upphífingum (strákar)
• Armbeygjum (stelpur)
• Dýfum (strákar)
• Hreystigreip (stelpur)
• Hraðaþraut (strákar og stelpur)

Keppendur skipta á milli sín keppnisgreinum. Annar strákurinn spreytir sig á upphífingum og dýfum meðan hinn keppir í hraðaþrautinni. Hjá stelpunum er hið sama uppi á teningnum: Önnur stúlkan keppir í armbeygjum og hreystigreip, en hin tekur þátt í hraðaþrautinni. Tveir skólar keppa samtímis í hverri þraut fyrir utan hreystigreip, en þar takast á fimm til átta skólar í einu. Í hraðaþrautinni fer stelpan fyrst af stað og þegar hún lýkur hringnum má strákurinn fara af stað í sinn hring. Samanlagður tími þeirra er keppnistími liðsins.

Ef þú telur að Fréttatíminn eigi erindi getur þú styrkt útgáfu blaðsins með því að gerast stofnfélagi í Frjálsri fjölmiðlun, stuðningsfélagi óháðrar blaðamennsku og Fréttatímans. Með framlagi sínu efla félagar ritstjórn Fréttatímans og færa blaðið til fleiri heimila.

Frjáls fjölmiðlun í almannaþjónustu er mikilvæg undirstaða heilbrigðs samfélags og nauðsynlegt mótvægi við þá fjölmiðla sem nú eru komnir í eigu sérhagsmunaaðila.