Ólafi Ólafssyni stefnt – Krafa upp á annan milljarð

Ritstjórn Fréttatímanns1 ár síðan145 min

Hróbjartur Jónatansson lögmaður, hefur f.h. Samtaka sparifjáreigenda, höfðað mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur gegn Ólafi Ólafssyni athafnamanni, oft kenndum við Samskip en Ólafur er með lögheimili í Sviss.
Aðalkrafa Samtaka sparifjáreigenda er að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 902.493.733 krónur ásamt vöxtum frá 9. október 2008 auk dráttarvaxta og málskostnaðar. Ljóst er að aðalkrafan er vel á annan milljarð uppreiknuð nái hún fram að ganga en til vara eru þrautavarakröfur. Ólafur hefur ekki enn lagt fram sína greinargerð en málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur 13. september n.k.

Lögmaðurinn lagði fram nákvæma málavaxtalýsingu sem að fer hér á eftir og hefur Ólafur Ólafsson frest til þess að skila sinni greinargerð og mæta í Héraðsdóm en ekki náðist í Ólaf við vinnslu fréttarinnar en hann getur hvernær sem er sent skilaboð eða tölvupóst, kjósi hann það.
Ólafur hefur verið duglegur við að útskýra sína hlið mála og bjó m.a. til myndband sem hann setti út á veraldarvefinn, er hann útskýrði aðkomu sína vegna einkavæðingar á Búnaðarbankanum.
Þar voru m.a. um að ræða millifærslur á aflandseyjur upp á milljarða til félaga sem að enginn veit hver á eða átti og ekki heldur Ólafur Ólafsson. Rannsóknarnefnd um einkavæðingu bankanna krufði það mál og gaf út sérstakar skýrslur um málið.
Hér að neðan eru ítarlegar skýringar Samtaka sparifjáreigenda vegna meintra skaðabóta.
,,Mál þetta varðar kröfu um skaðabætur vegna markaðsmisnotkunar sem átti sér stað í Kaupþingi banka hf. (hér eftir „Kaupþing“ eða „bankinn“) á árunum 2007-2008. Byggir málsókn þessi á því að stefndi hafi með markaðsmisnotkun, m.a. þeirri sem hann var sakfelldur fyrir í hæstaréttarmálinu nr. 145/2014, valdið hluthöfum í bankanum fjártjóni, þ.m.t. Stapa lífeyrissjóði kt. 601092-2559, sem stefnandi leiðir rétt sinn frá, með því að blekkja þá annars vegar til að kaupa hlutabréf í bankanum (einnig nefnd „bréfin“) á of háu verði á skipulegum verðbréfamarkaði og hins vegar til selja þau ekki áður en bankinn féll þann 9. október 2008 með yfirtöku Fjármálaeftirlitsins („FME“) á bankanum, sbr. nánari lýsing hér síðar.
2. Stefnandi er hagsmunasamtök almennra hluta- og sparifjáreigenda sem hefur m.a. þann skráða tilgang að gæta hagsmuna félagsmanna gagnvart stjórnvöldum, stjórnmálamönnum, útgefendum hlutabréfa og annarra verðbréfa, fjölmiðlum og öðrum þeim sem áhrif geta haft á hag þeirra, er fjárfesta í hlutabréfum, verðbréfum og öðrum sparnaðarleiðum. Tilgangi sínum hyggst stefnandi m.a. ná með því að hafa vakandi auga með því að reglur um verðbréfaviðskipti séu virtar og reka í eigin nafni eða annarra dómsmál til tryggingar því að lögbundin réttindi félagsmanna séu virt.
3. Kaupþing var fjármálafyrirtæki með starfsleyfi skv. lögum nr. 161/2002, sem rak umfangsmikla fjármálastarfsemi hér á landi og erlendis á árunum 2002-2008. Hlutabréf í bankanum voru fyrst skráð í Kauphöll Íslands í október 2000, þá undir nafni Kaupþings hf. og voru bréfin skráð þar allt þar til bankinn féll í byrjun október 2008. Voru hlutabréf bankans aukinheldur skráð í kauphöllinni í Stokkhólmi.
4. Bankinn í þeirri mynd sem hann var í við fall hans varð til við samruna Búnaðarbanka Íslands hf. og Kaupþings hf. árið 2003 en hið fyrrnefnda félag hafði verið ríkisbanki en einkavæddur árið 1998. Stefndi fór fyrir svokölluðum S-hópi sem keypti meirihluta í Búnaðarbankanum við einkavæðingu hans í gegnum félagið Egla hf. Árið 2003 átti Egla 9,5% í sameinuðum banka og var næst stærsti hluthafi hans. Síðar var hlutur Eglu að mestu færður yfir í hollenska félagið Kjalar Holding BV. Í júní 2007 var allur eignarhlutur stefnda í Kaupþing, sem þá nam 9,88%, færður undir annað hollenskt eignarhaldsfélag, Egla Invest BV. sem var systurfélag Kjalar Invest BV í eigu stefnda. Eignarhaldinu var þannig háttað að Egla hf. átti 99,99% hlut í Kjalar Holding BV. sem átti alla hluti í Kjalar Invest BV. og Eglu Invest BV. Kjalar ehf. átti síðan 0,01% hlut í Kjalar Holding BV á móti Eglu hf. Kjalar hf., sem var í eigu stefnda, átti svo 100% hlut í Eglu hf. Eignarhald stefnda á hlutabréfum í bankanum hélst óbreytt fram að falli bankans í október 2008 að undanskilinni þeirri breytingu sem varð á hlutafjáreign hans með hinum svokölluðu Al Thani viðskiptum í september 2008, sbr. nánar síðar.
5. Stefndi var næst stærsti hluthafi bankans í gegnum félög sín, eins og áður segir. Viðskiptafélagi stefnda og framkvæmdastjóri Kjalars ehf., Hjörleifur Jakobsson sat í stjórn bankans a.m.k. frá 2003 og þar til bankinn féll. Á lista yfir tuttugu stærstu hluthafa bankans í lok september 2008 var félag stefnda Egla Invest BV. næst stærsti hluthafinn, með 9,88% hlut, næst á eftir Exista BV sem átti um 24,7% hlut. Var Kaupþing sjálft stór hluthafi í Exista og bar raunar stærstu markaðsáhættuna af því félagi í gegnum lánveitingar til stærstu hluthafa Exista. Sá tólfti stærsti var Sigurður Einarsson stjórnarformaður bankans með rúmlega 1% hlut og sá þrettándi stærsti forstjóri samstæðu bankans Hreiðar Már Sigurðsson með tæpan 1% hlut. Sigurður Einarsson varð gjaldþrota á Íslandi á árinu 2016.
6. Á árunum 2004-2007 hækkaði gengi hlutabréfa í Kaupþingi verulega, líkt og í hinum íslensku bönkunum, ef frá er skilið stutt tímabil í ársbyrjun 2006 þegar gengi bréfanna lækkaði nokkuð en þá varð vísir að lausafjárkreppu á heimsvísu sem gekk til baka tímabundið. Frá ársbyrjun 2004 og fram til 18. júlí 2007 hækkaði gengi hlutabréfa í bankanum um 536% en síðastgreinda daginn varð ákveðinn viðsnúningur og fram að falli bankans í október 2008 varð nær samfelld lækkun á gengi hlutabréfa í Kaupþingi, ef frá er talið stutt tímabil er bréfin hækkuðu í framhaldi af tilkynningu bankans og stefnda um viðskipti bankans við félag í eigu fjárfestisins sheikh Mohammad Bin Khalifa Al-Thani frá Katar (hér eftir „MAT“) sem urðu að sakamáli sbr. hæstaréttarmálið nr. 145/2014.
7. Verðhækkunin á hlutum í Kaupþingi á árunum 2004-2007 skýrðist af því að á þeim tíma var nokkur kaupþrýstingur á hlutabréfin en með kaupþrýstingi er átt við fjölda hluta þar sem kaupandi á frumkvæði að viðskiptum umfram það þegar seljandi á frumkvæði að viðskiptunum. Árin 2004 og 2005 nam kaupþrýstingur 15.246.009 og 16.654.709 hlutum í þessari röð. Í upphafi árs 2006 myndaðist hins vegar söluþrýstingur upp á -11.383.154 hluti og gengi bréfanna lækkaði þá. Það tók svo aftur að hækka þrátt fyrir lítinn kaupþrýsting. Árin 2007 og 2008 jókst söluþrýstingur og varð -30.018.147 hlutir árið 2007 og -92.077.449 hlutir árið 2008.
8. Fyrir liggur að helstu stjórnendur og hluthafar í Kaupþingi héldu hlutabréfaverði í bankanum uppi með margvíslegum aðgerðum, meðal annars þeim sem byggt er á í málsókn þessari sbr. hér á eftir.
3.1. Markaðsmisnotkun stefnda samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 145/2014:
9. Með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 145/2014 var stefnda ásamt stjórnendum bankans, þeim Hreiðari Má Sigurðsyni, Sigurði Einarssyni og Magnúsi Guðmundssyni gerð refsing fyrir markaðsmisnotkun með hlutabréf í Kaupþingi á tímabilinu 18. til 23. september 2008. Í ákæru í málinu var stefnda að því er hér skiptir máli, annars vegar, gefið að sök að hafa stofnað til blekkingar- og sýndarviðskipta með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. í tengslum við meint kaup kaupsýslumannsins MAT frá Katar á hlutabréfum í bankanum og hins vegar gefin að sök markaðsmisnotkun með því að hafa 22. og 23. september 2008, í fréttatilkynningu sem birt var á vef Kauphallar Íslands og í viðtölum í fjölmiðlum í kjölfarið, dreift fréttum og upplýsingum sem gáfu eða voru líklegar til að gefa misvísandi upplýsingar og vísbendingar um viðskipti MAT í gegnum félagið Q Iceland Finance ehf. með hlutabréf í Kaupþingi.
10. Í fyrsta lagi, var byggt á því í ákæru að um markaðsmisnotkun hefði verið að ræða af hálfu stefnda í viðskiptum MAT og Kaupþings með hlutabréf í Kaupþingi í september 2008 með því að láta ranglega líta svo út að téður MAT hefði sjálfur lagt fé til kaupa á 5,01% hlutafjár í Kaupþingi og borið af þeim fulla markaðsáhættu þegar Q Iceland Finance ehf., dótturfélag í eigu eignarhaldsfélags hans, Q Iceland Holding ehf., var sagt hafa keypt umræddan hlut af bankanum. Hafi fullri fjármögnun bankans á hlutabréfakaupunum verið leynt, svo og aðkomu stefnda að þeim, en hann hafi á þeim tíma átt 9,88% hlutafjár í bankanum í gegnum félög sín Kjalar ehf. og dótturfélags þess hollenska félagið, Eglu Invest BV. Í þessum tilgangi hafi stefndi og meðákærðu sett upp viðskiptafléttu sem hafi verið fólgin í því að bankinn lánaði helming kaupverðsins til félagsins Serval Trading Group Corp, í eigu MAT, sem gengist hafi í persónulega ábyrgð fyrir því láni.
Kaupþing hafi lánað hinn helming kaupverðsins félaginu Gerland Assets Ltd., í eigu stefnda án þess að endurgreiðsla lánsins væri tryggð með nokkrum hætti og án þess að fyrir lægi samþykki lánanefndar Kaupþings. Hafi Hreiðar Már Sigurðsson forstjóri samstæðu Kaupþings ásamt Sigurði Einarssyni stjórnarformanni bankans svo tekið ákvörðun um hlutabréfaviðskiptin og fjármögnun þeirra og Hreiðar Már Sigurðsson gefið starfsmönnum bankans fyrirmæli um framkvæmd þeirra. Um hafi verið að ræða viðskipti með afar stóran hlut í Kaupþingi sem falið hafi í sér blekkingu og sýndarmennsku og verið líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfa í bankanum misvísandi til kynna þar sem dulin hafi verið að fullu fjármögnun bankans sjálfs í viðskiptunum og að auki aðkoma stórs hluthafa bankans, stefnda, að þeim og dulið að markaðsáhætta vegna hlutabréfanna hvíldi á bankanum sjálfum eftir viðskiptin. Var háttsemin talin varða við a. lið 1. töluliðar og 2. tölulið 1. mgr. 117. gr., sbr. 146. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Var stefndi því, ásamt öðrum, sakfelldur fyrir markaðsmisnotkun sem þeim var gefin að sök í ákæru.
11. Í téðum dómi Hæstaréttar var því slegið föstu, hvað framangreint varðar, að með þessum hlutabréfaviðskiptum hafi út á við ótvírætt verið gefin sú ásýnd að þekktur auðmaður, MAT, hafi staðið að þeim og með því að þögn ríkti um að Kaupþing hafi lagt til lánsfé fyrir kaupunum í heild hafi þeir sem utan þessara viðskipta stóðu ekki getað ætlað annað en að maður þessi hafi greitt fyrir hlutabréfin með reiðufé sem hann hafi sjálfur átt eða útvegað sér á annan hátt. Samkvæmt tilkynningu um viðskiptin seldi Kaupþing með þeim 37.100.000 eigin hluti fyrir 690 krónur hvern og hefði því mátt ætla að bankinn hafi fengið fyrir þá 25.599.000.000 krónur í reiðufé. Í reynd hefði bankinn þó ekkert reiðufé fengið, heldur kröfuréttindi á hendur tveimur erlendum félögum með takmarkaðri ábyrgð, að fjárhæð 12.863.497.675 krónur gagnvart hvoru þeirra, á grundvelli lána til félaganna vegna kaupanna. MAT hefði veitt sjálfskuldarábyrgð fyrir kröfunni á hendur öðru félaginu, en engin trygging hefði verið sett fyrir kröfunni á hendur hinu.
Þótt að mati Hæstaréttar ekki hefðu verið efni til að efast um að sjálfskuldarábyrgð þessi hafi verið raunhæf hafi verið undir hælinn lagt hvernig tekist gæti til með innheimtu kröfu á hendur hinu félaginu. Varðandi þá kröfu Kaupþings sem MAT hafi gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir yrði heldur ekki horft fram hjá því að samhliða kaupunum á hlutabréfunum hefði Kaupþing veitt félagi í eigu MAT, Brooks Trading Ltd., lán að fjárhæð 50.000.000 Bandaríkjadalir, án nokkurra trygginga og engin skiljanleg og haldbær ástæða fyrir þeirri ráðstöfun hafi komið fram í málinu. Þá hafi ætlan stefnda og annarra ákærðu bersýnilega staðið til þess að flagga þessum viðskiptum í röngum búningi, í þeim tilgangi að vekja upp spurn eftir hlutabréfum í Kaupþingi.
Eins og kaup Q Iceland Finance ehf. á 5,01% hlutabréfa í Kaupþingi hefðu verið kynnt út á við hefðu þau ekki aðeins gefið til kynna að þekktur og auðugur erlendur fjárfestir hafi einn átt þátt í þeim og staðið sjálfur straum af kaupverði hlutabréfanna, heldur hafi jafnframt búið þar að baki traust á félaginu sem banka á alþjóðlegum fjármálamarkaði og trú á arðsemi kaupanna. Ef opinberlega hefði verið greint frá raunverulegu megininntaki þessara kaupa hafi verið ótvírætt að þetta traust og sú trú hefði fengið á sig allt aðra og lakari mynd gagnvart markaðnum. Hafi því í þessum ráðstöfunum falist markaðsmisnotkun í skilningi a. liðar 1. töluliðar og 2. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007.
12. Í öðru lagi, hafi í fréttatilkynningu frá Kaupþingi, sem birt var 22. september 2008 á vef Kauphallar Íslands, verið tilkynnt um eftirfarandi: „Q Iceland Finance ehf., dótturfélag í eigu Q Iceland Holding ehf., sem er eignarhaldsfélag hans hátignar [MAT], hefur keypt 5,01% hlut í Kaupþingi banka hf. Q Iceland Finance keypti alls 37,1 milljón hluta á genginu 690 krónur á hlut og verður þar með þriðji stærsti hluthafi bankans. Hans hátign [MAT] er í konungsfjölskyldunni sem verið hefur við völd í Qatar frá því á nítjándu öld. Hans hátign [MAT]: „Við höfum fylgst náið með Kaupþingi í nokkurn tíma og teljum þetta góða fjárfestingu.
Staða Kaupþings er sterk og við höfum trú á stefnu og stjórnendum bankans, enda hefur Kaupþing náð góðum árangri við þær erfiðu aðstæður sem nú eru á markaðnum og sýnt fram á getu til þess að breytast og laga sig að nýjum veruleika í bankastarfsemi. Við lítum á hlut okkar í Kaupþingi sem langtímafjárfestingu og hlökkum til að eiga góð samskipti við stjórnendur bankans.“ Sigurður Einarsson, stjórnarformaður: „Okkur er mikil ánægja að bjóða hans hátign [MAT] velkominn í hluthafahóp Kaupþings. Það hefur lengi verið stefna okkar að laða nýja fjárfesta að bankanum og því er ánægjulegt að sjá að við höfum nú náð að breikka hluthafahópinn enn frekar. Við hlökkum til að vinna með hans hátign [MAT] í framtíðinni““.
13. Stefndi lét meðal annars hafa þetta eftir sér í fjölmiðlum: „Þetta er mikil viðurkenning fyrir Kaupþing.: „Ég er ekki í vafa um að þessi kaup munu skipta miklu fyrir Kaupþing. Bankar og fjármálafyrirtæki út um allan heim hafa legið utan í mönnum í Katar með það fyrir augum að fá þá inn sem hluthafa. Það gefur því góða mynd af styrk Kaupþings að [MAT] skuli kaupa hlut í bankanum.“…. „Það hefur tekist hjá Kaupþingi að fá góða erlenda fjárfesta inn í hópinn og það mun skipta sköpum í framtíðinni.“
14. Á þessum grundvelli var stefnda gefin að sök markaðsmisnotkun með því að framangreind fréttatilkynning og opinberar yfirlýsingar stefnda og meðákærðu um viðskiptin í kjölfarið hafi verið líklegar til að gefa misvísandi mynd af framangreindum viðskiptunum og vísbendingar um þau. Í ákæru var inntaki fréttatilkynningar og viðtala stefnda og meðákærðu við fjölmiðla nánar lýst, meðal annars með því að tekin voru upp orðrétt ummæli, sem höfð hafi verið eftir stefnda í tilteknum fjölmiðlum. Jafnframt var tiltekið á hvaða hátt talið væri að þessar upplýsingar og vísbendingar hafi verið misvísandi, en þær hafi verið fallnar til að hafa áhrif á ákvarðanir annarra um viðskipti með hlutabréf í Kaupþingi. Háttsemi stefnda samkvæmt þessum kafla ákærunnar var talin varða við 3. tölulið 1. mgr. 117. gr., sbr. 146. gr. laga nr. 108/2007.
15. Í þessum dómi Hæstaréttar var því slegið föstu að stefndi hefði komið að gerð hinnar röngu fréttatilkynningar. Hafi tilkynningin falið í sér opinbera kynningu á kaupum Q Iceland Finance ehf. á hlutabréfum í Kaupþingi en kaupin sem slík eins og um hafi verið um þau búið hafi verið rótin að broti stefnda eins og hafi verið lýst í III. kafla ákærunnar. Hafi ákvæði 3. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007, sem háttsemi stefnda samkvæmt IV. kafla ákærunnar var þar talin varða við, tekið meðal annars til dreifingar upplýsinga og frétta, sem væru líklegar til að gefa rangar eða misvísandi upplýsingar eða vísbendingar um fjármálagerninga. Væri þetta sjálfstætt brot gegn ákvæðum 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007.
Hafi í fréttatilkynningunni þó ekki verið látið við það sitja að greina frá því sem skylt væri að tilgreina við flöggun á viðskiptum til kauphallar, heldur hafi í henni verið því bætt við að félagið, sem keypti hlutabréfin, væri í eigu MAT, sem hefði verið tilgreindur með fullu nafni og tign, og tekið var fram að hann væri í konungsfjölskyldu sem hafi verið við völd í Katar frá því á nítjándu öld. Í framhaldi af þessu hefðu verið höfð ummæli innan tilvitnunarmerkja eftir MAT og síðan ákærða Sigurði Einarssyni forstjóra samstæðu Kaupþings í tilefni af kaupunum. Í tilkynningu þessari hafi á hinn bóginn í engu verið getið þeirra atriða sem vörðuðu nánari tilgreiningu á raunverulegu inntaki viðskiptanna með hlutabréfin í Kaupþingi.
Tilkynningin hafi því gefið rangar og misvísandi upplýsingar um þessi kaup, sem síðan voru ítrekaðar í þeim viðtölum fjölmiðla við stefnda, Hreiðar Má Sigurðsson og Sigurð Einarsson stjórnarformann Kaupþings. Hafi háttsemi stefnda og allra ákærðu falið í sér brot gegn 3. tölulið 1. mgr. 117. gr. nr. 108/2007, sem varðaði refsingu samkvæmt 1. tölulið 146. gr. sömu laga.
16. Í dómi Hæstaréttar sagði meðal annars þetta um tjón af háttsemi stefndi: „Við ákvörðun refsingar er til þess að líta að ákærðu, Hreiðar Már og Sigurður, voru á þeim tíma er brotin voru framin æðstu stjórnendur stærsta viðskiptabanka á Íslandi… og ákærði, Ólafur, einn stærsti einstaki hluthafi í bankanum í gegnum félög sín. Hin refsiverðu viðskipti ákærðu vörðuðu verulegum fjárhæðum. Eiga brotin sér ekki hliðstæðu í íslenskri réttarframkvæmd. Þá er við ákvörðun refsingar litið til þess að verulegt fjárhagslegt tjón hlaust af brotum ákærðu, sem fullframin voru á tímabilinu 18. til 23. september 2008. Eiga ákærðu sér engar málsbætur.“
17. Er vafalaust að framangreind refsiverð háttsemi stefnda hafði veruleg áhrif á verðbréfamarkaði en eins og dagslokaverð í hlutabréfum Kaupþings ber með sér, sbr. dskj. 6, þá sést að lækkun þess sem var nær samfellt frá 2007 stöðvaðist við tilkynninguna um viðskiptin við MAT og tók gengi bréfanna í kjölfarið skyndilega kipp upp á við.
18. Er í stefnu þessari, að því marki sem við á, að öðru leyti byggt á þeim málavöxtum sem lagðir voru til grundvallar niðurstöðu í framangreindu sakamáli, sbr. dskj. nr. 3, sem þykja, á grundvelli 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála (eml.) og 4. mgr. 186. gr. sakamálalaga nr. 88/2008 (sml.), sannaðir þar til hið gagnstæða er leitt í ljós.
3.2. Endurfjármögnun Kaupþings á láni Eglu Invest BV:
19. Að mati stefnanda er ljóst af téðum sakamáli á hendur stefnda og stjórnendum Kaupþings, sbr. og niðurstöðu hæstaréttarmálsins nr. 498/2015 á hendur stjórnendum og starfsmönnum Kaupþings þar sem þeim var gerð refsing fyrir stórfellda markaðsmisnotkun með hlutabréf kaupþings frá 1. nóvember 2007 til falls bankans 2008, að með þeim sem réðu bankanum hafi búið ríkur og einbeittur ásetningur til þess að stýra markaðsverði á hlutabréfum í bankanum á verðbréfamarkaði um langt árabil. Í því skyni hafi þessi hópur beitt bankanum fyrir sig með ýmsum hætti til að koma í veg fyrir að mikið framboð af hlutabréfum bankans færi á markað með tilheyrandi verðlækkun bréfanna. Hafi þeir þannig sammælst um að tryggja óeðlilega hátt verð á hlutabréfum í bankanum með ýmsum aðferðum. Þessi ásetningur þeirra hafi auk hinnar refsiverðu háttsemi sem lýst er í framangreindum dómum Hæstaréttar, í málunum nr. 145/2014 og nr. 498/2015, birst m.a. í þeirri ákvörðun Hreiðars Más Sigurðssonar og annarra stjórnenda bankans, annars vegar og stefnda hins vegar, að láta Kaupþing taka á sig fulla markaðsáhættu af 9,88% hlut stefnda í bankanum með því að endurfjármagna hlutabréfakaup Eglu Invest BV í bankanum sem áður höfðu verið með lánum frá Citibank í New York gegn veði í hlutunum sjálfum.
Sú lánveiting jafngilti þá um 3.000 milljónum króna og með veðtöku bankans í eigin hlutum Eglu Invest BV fór bankinn langt framyfir 10% heimild laga til þess eiga eða taka að veði eigin hluti, án þess þó að þess sæist stoð í endurskoðuðum reikningum bankans. Samkvæmt upplýsingum Fjármálaeftirlitsins þá bárust stofnuninni á tímabilinu 1. júní 2007 til 30. september 2008 engin erindi frá Kaupþingi þar sem óskað var eftir samþykki Fjármálaeftirlitsins til að mega eiga eða taka eigin hluti að veði, eins og 29. gr. fftl. áskildi.
20. Eins og slegið er föstu í hæstaréttarmálinu nr. 498/2015 stóðu helstu stjórnendur Kaupþings í umfangsmikilli markaðsmisnotkun með hlutabréf Kaupþings, a.m.k. frá 1. nóvember 2007 og fram að falli bankans. Í því skyni að viðhalda þeirri markaðsmisnotkun sem þar er lýst ákváðu stefndi og stjórnendur Kaupþings að færa markaðsáhættu af 9,88% eignarhlut stefnda í bankanum yfir á bankann sjálfan og forða því að sá hlutur færi á markað við aðgerðir Citibank sem átti veð í þeim hlutum. Þessi lánveiting var því liður í markaðsmisnotkun af hálfu stjórnenda bankans sem hafði hafist löngu áður.
21. Alkunna er, af því sem birst hefur ítrekað í fjölmiðlum um málefni Kaupþings og helstu stjórnenda og hluthafa bankans eftir hrun hans, að í júní 2007 hafi stefndi leitað til alþjóðlegs banka, Citibank, um að endurfjármagna kaup Eglu hf. og Kjalars hf. á hlutabréfum í Kaupþingi. Gekk það eftir og var hluturinn þá fluttur í annað hollenskt félag, Eglu Invest BV, sem fékk lán frá Citibank sem nam 70% af markaðsvirði hlutabréfanna. Lánið var með veði í þessum hlutabréfum Kaupþings, sem voru eina eign Eglu Invest BV, og var ákvæði um veðkall ef markaðsvirði bréfanna færi niður fyrir 70% af upphæð lánsins. Stefnandi ætlar af því sem ráða má af fundargerð um téða lánveitingu í Kaupþingi á árinu 2008 að Kaupþing hafi veitt Citibank svokallað „Comfort Letter“, þ.e. yfirlýsingu um að styðja stefnda og/eða Eglu Invest BV. og tengd félög, ef markaðsvirði bréfanna lækkaði niður fyrir tryggingarmörk.
22. Síðla árs 2007 og í ársbyrjun 2008 hafði hlutabréfaverð Kaupþings lækkað nokkuð sem olli því að veðstaða Eglu Invest BV gagnvart Citibank hafði versnað mjög og verðmæti hlutabréfanna fallið niður fyrir veðkallsþröskuldinn. Beitti Citibank þá veðkalli gagnvart Eglu Invest BV. Við blasti þá að Citibank gengi að hinum veðsettu hlutabréfum í Kaupþingi til lúkningar láninu. Kæmi til slíks myndi það fyrirsjáanlega auka mjög verulega framboð á hlutabréfum Kaupþings á markaði með samsvarandi verðlækkun þeirra og slíkt myndi bersýnilega ónýta það fyrirkomulag sem bankinn viðhafði við að halda uppi markaðsverði eigin hluta og lýst er í hæstaréttarmálinu nr. 498/2015. Til þess að mæta veðkalli Citibank og forða því að hlutabréfin færu á markað sammæltust stefndi og stjórnendur Kaupþings um að bankinn myndi taka á sig markaðsáhættuna af hlutabréfum Eglu Invest BV í Kaupþingi. Í því skyni var ákveðið að Kaupþing myndi í fyrstu veita Kjalari 120 milljón evra lán ( jafnvirði u.þ.b. 11,5 milljarða króna) í því skyni að greiða inn á lán Citibank gegn 2. veðrétti í bréfunum, næst á eftir Glitni og Citibank.
Í fundargerð lánanefndar Kaupþings er m.a. bókað um þetta: „Líklegast er að Kaupþing verði að fjármagna eign Kjalars í Kaupþingi, a.m.k. þar til varanleg lausn hefur fundist. Fram kom á fundinum að Kaupþing ætti í viðræðum við „Citi“.“ Engin skýring var gefin á því afhverju Kaupþing „yrði að fjármagna“ eign Kjalars í Kaupþingi eða hvers vegna Kaupþing sjálft væri í viðræðum við Citibank, eins og skráð var í fundargerðina. En hvort tveggja verður að telja vísbendingu um að bankinn hafi í raun áður skuldbundið sig með einum eða öðrum hætti gagnvart Citibank að leysa Eglu Invest BV undan skuldbindingum við Citibank við verðfall eigin hluta. Er nærtækast að álykta að Kaupþing hafi áður en til viðskipta Eglu Invest BV og Citibank kom veitt Citibank vilyrði fyrir því að leysa lánaáhættuna til sín ef hlutabréf í Kaupþingi myndi lækka niður fyrir tryggingarmörk. Í framhaldinu veitti Kaupþing Eglu Invest BV. lán að fjárhæð 120 milljón evra með 2. veðrétti í hlutabréfum í Kaupþingi, eins og áður segir, svo sem fram kemur í fundargerð lánanefndar Kaupþings 30.janúar 2008. Sú veðtrygging var bersýnilega ónóg.
23. Í mars 2008 hafði íslenska krónan fallið verulega. Í janúar 2008 hafði miðgildi evru samkvæmt gengisskráningu Seðlabankans verið 96,3 krónur en um miðjan apríl var það komið í 118,2 krónur. Af því leiddi að tryggingarstaða láns Citibank til Eglu Invest BV hafði enn versnað og því enn yfirvofandi veðkall frá Citibank með tilheyrandi aðför þess banka að hlutabréfum Eglu Invest BV í Kaupþingi. Síðar um vorið 2008 yfirtók Kaupþing alla fjármögnun bréfanna af Citibank. Í apríl 2008 lánaði Kaupþing svo Eglu Invest BV. til viðbótar 160 milljónir evra (jafnvirði u.þ.b. 18,9 milljarða króna) til uppgreiðslu á eftirstöðvum lána Citibank til félagsins. Alls hafði Kaupþing því lánað yfir 3.000 milljónir króna til Eglu Invest BV með veði í eigin hlutum og bar Kaupþing þá eitt fulla markaðsáhættu af eign Eglu Invest BV í bankanum en ekki var öðrum eignum til að dreifa en hlutabréfunum í Kaupþingi.
24. Þessi aðkoma Kaupþings að viðskiptum stefnda með hluti í bankanum samrýmdist með engum hætti því regluverki sem gilti um starfsemi bankans. Voru engin lagaskilyrði fyrir því að bankinn tækist á hendur þessar skuldbindingar í þágu Eglu Invest BV. og var bersýnilegt að lánveitingin hafði verið gerð af ómálefnalegum ástæðum og hafði í för með sér verulega fjártjónshættu fyrir bankann sem raungerðist. Við fall bankans tapaðist þetta lán að fullu, við gjaldþrot Eglu Invest BV. og eðli málsins samkvæmt fólst engin eiginleg endurgreiðslutrygging í víkjandi kröfu bankans á hendur sjálfum sér.
25. Þegar upp var staðið hafði Kaupþing því lánað Eglu Invest BV. yfir 3.000 milljónir króna til að leysa hlutabréfaeign sína í Kaupþingi undan veðböndum Citibank. Með þeirri lánveitingu tók Kaupþing á sig fulla markaðsáhættu af bréfunum, bersýnilega í því skyni einu að koma í veg fyrir að um 10% hlutur í bankanum færi í sölu á almennum verðbréfamarkaði með samsvarandi framboði af hlutabréfum í bankanum með fyrirsjáanlegri verðlækkun bréfanna. Með þessari lánveitingunni til félags stefnda komu stefndi og stjórnendur Kaupþings sameiginlega í veg fyrir lækkun bréfanna og tryggðu áframhaldandi óeðlilega hátt markaðsverð þeirra með þeirri framkvæmd sem viðhöfð var og dæmd var refsiverð í hæstaréttarmálinu nr. 498/2015. Slík háttsemi fór gegn b-lið 1. tölul. 1. mgr. 117. gr. vvl.
26. Þrátt fyrir að refsimál hafi ekki verið höfðað vegna þessara aðgerða stefnda og stjórnenda Kaupþings til að stjórna markaðsverði hlutabréfa í Kaupþingi þá er engu að síður ljóst að sú háttsemi stefnda og stjórnenda Kaupþings að láta bankann taka á sig alla markaðsáhættu af tæplega 10% hlut Eglu Invest BV., til þess að forða því að hlutabréfin færu í almenna sölu og við þær markaðsaðstæður að hlutabréfaverð fór lækkandi og fjártjónshætta Kaupþings fyrirsjáanleg, var andstæð 117. gr. vvl. og saknæm og ólögmæt að mati stefnanda, eins og ráða má af rökstuðningi Hæstaréttar í málinu nr. 498/2015, m.a. um lánveitingar Kaupþings til eignalítilla félaga, eingöngu með veði í hlutabréfum í Kaupþingi.
3.3. Áhrif eigin hlutabréfa Kaupþings á eiginfjárgrunn bankans:
27. Samkvæmt 1. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002 (fftl.) um fjármálafyrirtæki skyldi eiginfjárgrunnur fjármálafyrirtækis, eins og hann var skilgreindur í 4. mgr. 84. gr. laganna fyrir fall bankans á hverjum tíma nema að lágmarki 8% af áhættugrunni en frá eiginfjárgrunni skyldi m.a. draga eigin hlutabréf og lán sem voru einvörðungu tryggð með veði í eigin hlutabréfum fjármálafyrirtækis.
28. Áður hefur verið lýst umfangsmiklum kaupum Kaupþings á eigin hlutabréfum auk lánveitinga til tilgreindra félaga þar sem veitt voru umfangsmikil lán til að fjármagna kaup á bréfum í bankanum, eins og nánar greinir í hæstaréttarmálinu nr. 498/2015. Auk þess er vísað til framangreindrar umfjöllunar um lán bankans til Eglu Invest BV. við endurfjármögnun á láni Citibank. Eins og rakið verður nánar hér síðar var eða mátti stefnda sem næst stærsta hluthafa bankans sem hafði fengið heimild Fjármálaeftirlitsins til að fara með stóran eignarhluta í bankanum, vera ljóst að bankanum væri skylt að draga öll eigin bréf Kaupþings og öll lán, sem nutu veðtryggingar í hlutabréfum útgefnum af Kaupþingi, frá eiginfjárgrunni bankans. Með því að gera það ekki blekktu stjórnendur og hluthafar Kaupþings, þ.m.t. stefndi, eftirlitsaðila og þátttakendur á verðbréfamarkaði þar sem eiginfjárstaða bankans var sýnd önnur og betri en hún var í raun og veru. Hefðu stjórnendur bankans farið að lögum að þessu leyti hefði eiginfjárhlutfall bankans verið verulega lægra og mögulega fallið undir hið lögboðna 8% lágmark og bankinn því misst starfsleyfi sitt sem fjármálafyrirtæki í síðasta lagi í upphafi árs 2008, er bankinn endurfjármagnaði lán Eglu Invest BV. frá Citibank.
3.4. Hlutabréf í Kaupþingi framseld til stefnanda:
29. Stefnandi eignaðist fyrir framsal öll hlutabréf Stapa Lífeyrissjóðs í Kaupþingi hf. sem lífeyrissjóðurinn átti er bankinn féll, eða 196.108 hluti, að nafnverði 1.961.080 krónur, auk allra tilheyrandi kröfuréttinda, þ.m.t. skaðabótakrafna vegna allra þeirra hlutabréfa sem lífeyrissjóðurinn átti í Kaupþingi fram að falli bankans 2008.
30. Stapi lífeyrissjóður hafði alls keypt hlutabréf í Kaupþingi fyrir kr. 6.391.528.301 þegar bankinn féll. Þann 1.nóvember 2007 átti Stapi hlutabréf í bankanum sem hann hafði keypt fyrir kr. 4.230.351.569. Eftir þann dag og fram til 7. ágúst 2008 keypti Stapi hlutabréf í Kaupþingi fyrir samtals kr. 2.161.176.782. Frá 1. nóvember 2007 og til falls bankans seldi Stapi fyrir samtals kr. 5.455.837.008. Arður fenginn eftir þann dag nam kr. 33.197.560. Nettó mismunur kaupverðs hlutabréfanna, annars vegar og söluverð og arðs af bréfunum, hins vegar, nam kr. 902.493.733 þegar Kaupþing féll. Sjá nánar yfirlit yfir hlutabréfakaup Stapa á dskj. nr. 22.
4. Málsástæður:
4.1. Almennt um málatilbúnað stefnanda:
31. Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á almennum reglum skaðabótaréttar um bótaskyldu utan samninga. Annars vegar, er byggt á því að með refsidómi í hæstaréttarmálinu nr. 145/2014, hafi stefndi bakað sér skaðabótaábyrgð gagnvart hluthöfum bankans vegna markaðsmisnotkunar með hlutabréf í Kaupþingi á tímabilinu 18-23. september 2008 og hins vegar, með þátttöku sinni í því að Kaupþing tók á sig alla markaðsáhættu af hlutabréfaeign Eglu Invest BV. í bankanum, með því að lána félaginu yfir 3.000 milljónir króna á fyrri hluta árs 2008, gagngert í því skyni að halda uppi markaðsverði hlutabréfa í Kaupþingi.
32. Í fyrra tilvikinu er byggt á því að stefndi hafi verið sakfelldur, ásamt formlegum stjórnendum Kaupþings, fyrir markaðsmisnotkun í tengslum við viðskipti Kaupþings og MAT, sbr. dómur Hæstaréttar 12. febrúar 2015 í máli nr. 145/2014, sbr. dskj. 3. Hafi sá dómur fullt sönnunargildi um þau málsatvik sem í þeim greinir þar til hið gagnstæða er sannað, sbr. 4. mgr. 186. gr. sml. og 4. mgr. 116. gr. eml. og er stefnanda nægilegt að vísa til þeirrar dóma um það sem slegið er föstu í þeim, sbr. dómur Hæstaréttar í málinu nr. 845/2017. Sú háttsemi sem sakfellt var fyrir og hér skiptir máli er markaðsmisnotkun samkvæmt 117. gr. vvl. og voru brotin talin framin af ásetningi hinna sakfelldu, þar með talið stefnda.
33. Í síðara tilvikinu, er byggt á því að með samráði stefnda og formlegra stjórnenda Kaupþings um að bankinn tæki á sig alla markaðsáhættu af 9,88% hlut Eglu Invest BV. í bankanum, gagngert til þess að forða innheimtuaðgerðum Citibank, hafi stefndi gerst brotlegur við 117. gr. vvl. með samsvarandi bótaskyldu gagnvart hluthöfum í bankanum. Sé óhjákvæmilegt að álykta annað en að endurfjármögnun Kaupþings á skuldum Eglu Invest BV. hafi verið framkvæmd að yfirlögðu ráði af hálfu stefnda til þess að forða markaðslækkun hlutabréfa í Kaupþingi og sem liður í þeirri viðvarandi markaðsmisnotkun sem lýst var refsiverð í hæstaréttarmálinu nr. 498/2015. Í þeirri aðgerð fólst því ásetningur um að tryggja markaðsverð á hlutabréfum í Kaupþingi í skilningi b – liðar 1. tölul. 117. gr. vvl. sem sé bæði saknæmt og ólögmætt.
34. Við mat á bótaábyrgð stefnda beri að beita ströngu sakarmati skv. reglum um sérfræðiábyrgð enda hafi hann verið næst stærsti hluthafi bankans með náin tengsl inn í stjórnendahóp hans. Þá beri við sakarmatið að gæta að því að smærri hluthafar í Kaupþingi, sem ekki stóðu í nánu sambandi við stjórnendur bankans, gátu hvorki gert sér grein fyrir að háttsemi stefnda kynni að valda þeim fjártjóni né áttu þeir möguleika á að fyrirbyggja eða minnka sitt tjón áður en bankinn féll. Í ljósi stöðu stefnda sem fagfjárfestis beri að slaka á kröfum um orsakatengsl og snúa sönnunarbyrðinni við, ef því er að skipta.
4.2. Saknæm og ólögmæt háttsemi stefnda:
35. Stefnandi byggir nánar á því að stefndi hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi sem hafi valdið þeim hluthafa í Kaupþingi fjártjóni sem hann leiðir rétt sinn frá. Felist hin saknæma og ólögmæta háttsemi stefnda í markaðsmisnotkun sem er refsiverð samkvæmt 117. gr. vvl. eins og áður hefur verið rakið, en það ákvæði er skráð hátternisregla sem mælir fyrir um bann við tiltekinni háttsemi á skipulegum verðbréfamarkaði, þ.e. að beita aðferðum og/eða opinberlega blekkingum í því skyni að hafa áhrif á framboð, eftirspurn eða verð skráðra fjármálagerninga, sbr. nánari tilgreiningu í 117. gr.vvl. Liggi þannig fyrir brot stefnda á þessari skráðu hátternisreglu sem framið var af einbeittum ásetningi og sé því vafalaust að um saknæma og ólögmæta háttsemi stefnda var að ræða.
36. Samkvæmt því sem að framan er rakið liggur fyrir að stefndi braut gegn ákvæði 117. gr. vvl., eins og áður segir, en ákvæðið er svohljóðandi:
Markaðsmisnotkun er óheimil. Með markaðsmisnotkun er átt við að:
1. eiga viðskipti eða gera tilboð sem:
a. gefa eða eru líkleg til að gefa framboð, eftirspurn eða verð fjármálagerninga ranglega eða misvísandi til kynna, eða
b. tryggja óeðlilegt verð eða búa til verð á einum eða fleirum fjármálagerningum, nema aðilinn sem átti viðskiptin eða gaf fyrirmæli um þau geti sýnt fram á að ástæður að baki þeim séu lögmætar og að viðskiptin eða fyrirmælin hafi verið í samræmi við viðurkennda markaðsframkvæmd á viðkomandi skipulegum verðbréfamarkaði,
2. eiga viðskipti eða gera tilboð sem byggð eru á tilbúningi eða þar sem notuð eru einhver form blekkingar eða sýndarmennsku,
3. dreifa upplýsingum, fréttum eða orðrómi sem gefa eða eru líkleg til að gefa rangar eða misvísandi upplýsingar eða vísbendingar um fjármálagerninga, enda hafi sá sem dreifði upplýsingunum vitað eða mátt vita að upplýsingarnar voru rangar eða misvísandi. Þegar fjölmiðlamenn miðla slíkum upplýsingum í krafti starfs síns ber að meta upplýsingamiðlunina með hliðsjón af reglum um starfsgrein þeirra, svo fremi þessir aðilar hljóti hvorki ávinning né hagnist af miðlun viðkomandi upplýsinga með beinum eða óbeinum hætti.
37. Í fyrsta lagi, var stefndi sakfelldur fyrir viðskipti með hlutabréf í Kaupþingi við MAT sem samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 145/2014 voru talin varða við a-lið 1. tölul. og 2. tölul. 1. mgr. 117. gr. vvl. með refsiverðum hætti. Voru stefndi og tilgreindir stjórnendur Kaupþings taldir hafa í þeim viðskiptum sameiginlega látið ranglega líta svo út að MAT hefði lagt fé til að kaupa u.þ.b. 5% hlutafjár í Kaupþingi af bankanum sjálfum og leynt því að bankinn hefði í raun borið fulla markaðsáhættu af kaupunum. Jafnframt að hafa þagað um aðkomu stefnda að viðskiptunum sem hafi í reynd verið kaupandi að helmingi hlutarins á móti MAT fyrir lánsfé frá bankanum, sbr. nánar málsatvikalýsing hér að ofan. Hafi stefndi sem raunverulegur aðili að viðskiptunum einnig lagt á ráðin um þau og haft að auki milligöngu við MAT um að koma þeim á. Þá var og leitt í ljós að tilgangur með flöggun á viðskiptunum við MAT hefði verið sá að búa til spurn eftir hlutabréfum í Kaupþingi. Var stefndi talinn vera hlutdeildarmaður í þessum brotum stjórnenda Kaupþings og honum gerð refsing.
38. Í öðru lagi, var stefndi dæmdur í málinu fyrir brot gegn 3. tölul. 117. gr. vvl. Er upplýst í framangreindum hæstaréttardómi að þann 22. september 2008 hafi viðskipti með sölu á hlutum bankans til MAT verið tilkynnt af hálfu Kaupþings til kauphallar með fréttatilkynningu, sbr. dskj. 10. Auk þess birtust tilkynningar sama efnis í ýmsum fjölmiðlum og viðhafði stefndi, ásamt formlegum stjórnendum bankans, sambærileg ummæli í viðtölum við hina ýmsu fjölmiðla, sbr. dskj. 11-14. Voru tilkynningarnar og fréttaumfjöllun þeim tengd taldar falla undir 3. tölul. 1. mgr. 117. gr. vvl. og stefndi ásamt meðákærðu því sakfelldur fyrir brot gegn því ákvæði.
39. Til viðbótar við þá háttsemi stefnda, sem hér hefur verið lýst, og sakfellt var fyrir í framangreindum dómi Hæstaréttar, þá byggir stefnandi á því að stefndi hafi með þátttöku sinni í lánveitingu Kaupþings til Eglu Invest BV á fyrri hluta árs 2008, til þess að forða því að Citibank gengi að veðtryggingu sinni í hlutabréfum Eglu Invest BV. í Kaupþingi, tekið þátt í að viðhalda með saknæmum og ólögmætum hætti of háu markaðsverði hlutabréfa í Kaupþingi. Þær samstilltu aðgerðir stefnda og stjórnenda bankans sem leiddu til lánveitingarinnar hafi beinlínis komið í veg fyrir að hinir veðsettu hlutir Eglu Invest BV í bankanum til Citibank færu á markað með fyrirsjáanlegri gengislækkun bréfanna. Í þessum aðgerðum fólust að mati stefnanda aðgerðir til að tryggja verð eða búa til verð á fjármálagerningi í skilningi b-liðar 1. tölul. 1. mgr. 117. gr. vvl. og sem teljast því vera saknæm og ólögmæt háttsemi. Geti lánveitingin til Eglu Invest BV. á engan hátt talist hafa verið gerð á grundvelli lögmætra ástæðna og að viðskiptin eða fyrirmælin hafi verið í samræmi við viðurkennda markaðsframkvæmd á viðkomandi skipulegum verðbréfamarkaði.
40. Framangreind lánveiting Kaupþings til Eglu Invest BV, til þess að leysa félagið undan skuldbindingum sínum gagnvart Citibank, var samkvæmt almennum fréttum eftir hrun bankans, og því sem alkunnugt er í kjölfar útgáfu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um orsakir bankahrunsins 2008, framkvæmd með þeim hætti að Kaupþing veitti Eglu Invest BV. fyrst lán að fjárhæð 120 milljón evrur í janúar 2008 og síðan aftur að fjárhæð 160 milljón evra í apríl 2008, samtals að jafnvirði yfir 3.000 milljónir króna, sem ráðstafað var til uppgreiðslu skulda Eglu Invest BV.við Citibank. Við það losnuðu hlutabréf Eglu Invest BV í Kaupþingi undan veðsetningu til Citibank og urðu, a.m.k. að nafninu til, trygging fyrir endurgreiðslu téðs láns Kaupþings til félagsins.
41. Undanfari lánveitingarinnar var, eins og einnig er alkunnugt nú, að Citibank hafði gert veðkall á hendur Eglu Invest BV. í árslok 2007 þar sem markaðsvirði hlutabréfa í Kaupþingi hafði þá lækkað niður fyrir umsamin tryggingarmörk. Án viðbótartrygginga félagsins til Citibank blasti því við að stefndi myndi missa eignarhald sitt á téðum bréfum í Kaupþingi og að Citibank myndi selja þau á almennum markaði til þess að fullnustu veðrétt sinn í bréfunum. Fáir ef nokkrir líklegir kaupendur voru að slíkum fjölda hlutabréfa í Kaupþingi, nema bankinn sjálfur, með ólöglegum hætti eins og staðreynt hefur verið í máli nr. 498/2015, og bersýnilegt að verulegt verðfall yrði á hlutabréfunum ef svo stór hlutur yrði boðinn til sölu á markaðnum í einu lagi. Stefndi lagði Eglu Invest BV. ekki til viðbótarfé til að mæta aukinni tryggingarþörf enda öllum fagfjárfestum ljóst að hlutabréfaverð var á hraðri niðurleið á öllum mörkuðum. Ef hlutur Eglu Invest BV. færi á markað fyrir tilverknað Citibank myndi ónýtast það fyrirkomulag sem stjórnendur Kaupþings viðhöfðu til að halda uppi verði eigin hluta bankans og var lýst refsivert með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 498/2015. Afréð stefndi því ásamt stjórnendum Kaupþings að færa áhættuna af eignarhaldi hlutabréfa Eglu Invest BV af Citibank og yfir á Kaupþing og tryggja með þeim hætti að bréfin færu ekki á markað. Var lánveiting Kaupþings til Eglu Invest BV. því gagngert gerð í því skyni að forða því að Citibank gengi að hinum veðsettu hlutabréfum í Kaupþingi og setti þau í sölu á almennum markaði. En stefndi, líkt og æðstu stjórnendur bankans, voru meðal stærstu hluthafa í bankanum og höfðu persónulegan hag af því að hlutabréf í Kaupþingi lækkuðu ekki vegna þeirra keðjuáhrifa sem slíkt hefði á fjárfestingar þeirra í hlutabréfum. Aðrir hluthafar eða viðskiptamenn gátu ekki fengið viðlíka lánveitingar í sína þágu eins og stefndi fékk með þessum hætti. Hann skuggastýrði bankanum, með aðstoð viðskiptafélaga síns, sem hafði setið í stjórn bankans um margra ára bil. Er því ljóst að stefndi hafði ætíð víðtæk ítök innan bankans frá þeim tíma er hann eignaðist stóran hluta í bankanum. Framangreind lánveiting Kaupþings til Eglu Invest B.V. var því án nokkurs vafa framkvæmd fyrst og fremst með þeim ásetningi að forða því að hlutabréf Kaupþings myndu lækka á markaði.
42. Með veitingu Kaupþings á framangreindum lánum til Eglu Invest B.. komu stefndi og aðrir helstu hluthafar og stjórnendur Kaupþings, því sameiginlega til leiðar að markaðsáhættan af 9,88% hlut Eglu Invest B.V. í Kaupþingi hf. yrði hjá bankanum og að hlutabréf í eigu Eglu Invest BV. færu ekki til sölu á almennum verðbréfamarkaði.
43. Stefndi var fjárhagslega tengdur Kaupþingi í skilningi reglna FME nr. 216/2007 enda líkur á að fjárhagslegir erfiðleikar bankans eða félaga í eigu hans hefðu keðjuverkunaráhrif á stöðu bankans. Félögin Kjalar, Egla Invest B.V. og önnur félög stefnda mynduðu saman einn stærsta lántakahóp Kaupþings. Í lok september 2008 voru félög í eigu stefnda fjórði stærsti lántaki Kaupþings með lán sem námu um 18% af skráðum eiginfjárgrunni bankans við fall hans. Lánveitingar Kaupþings til félaga stefnda töldust því til stórrar áhættu í skilningi 30. gr. fftl. Þá taldist stefndi, að mati stefnanda, hafa óbein yfirráð yfir bankanum í skilningi reglna FME nr. 216/2007, sbr. og 3. mgr. 100. gr. vvl. Stefndi var í nánum tengslum við stjórnendur Kaupþings og stjórnendur annarra stórra hluthafa í bankanum. Stjórnendur og hluthafar Kaupþings réðu stærsta hluthafanum í bankanum, Exista hf. auk fjölda annarra félaga og sjóða sem voru hluthafar í bankanum.
44. Er á því byggt að stefndi hafi átt frumkvæði að, hvatt til og í raun stýrt þeirri ákvörðun Kaupþings að endurfjármagna lán félags hans hjá Citibank í þeim tilgangi að tryggja óeðlilega hátt markaðsverð á hlutabréfum í bankanum á á árinu 2008. Engar sýnilegar ástæður voru fyrir lánveitingunni af hálfu Kaupþings aðrar en þær að fylgja fyrirmælum eins stærsta hluthafans í bankanum og um leið tryggja óeðlilegt markaðsverð á hlutabréfum í bankanum, í tengslum við hina skipulögðu markaðsmisnotkun stjórnenda hans sem lýst er í hæstaréttarmálinu nr.498/2015. En augljóst er að stefndi, sem og Hreiðar Már Sigurðsson forstjóri samstæðu bankans og Sigurður Einarsson stjórnarformaður bankans sem einnig voru meðal stærstu hluthafa bankans, höfðu sameiginlegan hag af því að hlutabréfaverði í bankanum yrði haldið háu á skipulegum markaði. Með hliðsjón af framangreindu tók stefndi augljóslega þátt í ráðstöfunum stjórnenda Kaupþings sem ætlað var að tryggja óeðlilegt verð á hlutabréfum Kaupþings á árinu 2008, eins og framangreind lánveiting til Eglu Invest BV. og hæstaréttarmálið nr. 145/2014 staðfesta. Gildir einu þó stefndi hafi ekki haft formlegt vald til að binda bankann enda hann stýrði hann Eglu Invest BV. og var því beinn þátttakandi í téðum aðgerðum við að forða því að hlutabréf Eglu Invest BV í bankanum færu ekki á markað vegna vanskila félagsins við Citibank. Bersýnilegt er að stefndi beitti áhrifum sínum sem stór hluthafi í bankanum. Slíkar ráðstafanir falla undir að vera markaðsmisnotkun skv. b-lið 1. mgr. 117. gr. vvl.
45. Engar lögmætar ástæður voru að baki lánveitingum Kaupþings til Eglu Invest BV., félags sem átti aðeins hlutabréf í Kaupþingi og var í greiðsluvandræðum vegna fallandi markaðsverðs á hlutum í bankanum. Lánveitingin samræmdist hvorki lögum og reglum um starfrækslu hlutafélaga og fjármálafyrirtækja né viðurkenndri markaðsframkvæmd á skipulegum verðbréfamarkaði í skilningi b-liðar 1. tölul. 1. mgr. 117. gr. vvl. Í lánveitingunni fólust m.a. brot á lögum um hlutafélög nr. 2/1995, lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, og lögum um ársreikninga nr. 3/2006. Þá samrýmdist lánveitingin ekki lánareglum Kaupþings um útlánatryggingar. En hvorki var endurgreiðsla lánanna tryggð í samræmi við ákvæði reglubókar bankans um töku trygginga fyrir útlánum né var greiðslugeta og eignastaða félagsins með þeim hætti að skilyrði útlánareglnanna voru uppfyllt.
46. Þá var aðkoma Kaupþings að málefnum Eglu Invest BV og Citibank í engu samræmi við viðurkennda markaðsframkvæmd, enda var tilgangur hennar að forða verðlækkun hlutabréfa í Kaupþingi sem blasti við ef Citibank gengi að hinum veðsettu hlutabréfum og tryggja of hátt verð. Hæstiréttur taldi í málinu nr. 498/2015 að leitt væri í ljós að æðstu stjórnendur Kaupþings hefðu a.m.k. frá 1. nóvember 2007 og út árið 2008 með skipulegum hætti komið í veg fyrir að eigin hlutir í bankanum færu á almennan markað. Hefði sú atburðarás jafnan farið af stað þegar bankinn hefði þurft að losa sig við eigin hluti sem aflað var fyrir markaðsmisnotkun, að æðstu stjórnendur bankans hefðu tekið til við að finna félög sem að nafninu til gætu keypt hlutina af bankanum.
Slík sala eigin hlutabréfa Kaupþings til eignalausra eða eignalítilla hlutafélaga með því að lána söluverðið að fullu og eingöngu með veði í hlutunum sjálfum hefði verið markaðsmisnotkun og gerð til að ráða raunverulegu verði hlutabréfanna án tillits til raunverulegs framboðs og eftirspurnar á markaði. Með þessum viðskiptum, að því marki sem þau voru þá sýnileg öðrum, hafi bankinn ranglega látið líta svo út að kaupendur hlutanna hefðu borið fulla markaðsáhættu af þeim þegar hún var í raun hjá bankanum. Því hafi öll slík viðskipti byggst á blekkingum og sýndarmennsku og verið gerð í þeim tilgangi að gefa eftirspurn eftir hlutum í bankanum ranglega og misvísandi til kynna, til að stýra markaðsverði bréfanna. Lánveiting Kaupþings til Eglu Invest BV var því gerð í sama tilgangi, að forða því að markaðsverð þeirra réðist af framboði og eftirspurn á verðbréfamarkaði.
47. Kaupþingi var óheimilt án samþykkis Fjármálaeftirlitsins að eiga eða taka að veði eigin hluti sem næmu hærri fjárhæð en 10% af nafnverði innborgaðs hlutafjár í bankanum, sbr. þágildandi ákvæði 1. mgr. 29. gr. laga nr. 161/2002, og var honum skylt að flagga á grundvelli 93. gr. laga nr. 108/2007 ef farið var yfir 5% mörk í þeim efnum. Í hæstaréttarmálinu nr. 498/2015 er því slegið föstu að stjórnendur Kaupþings hafi forðast flöggun í lengstu lög. Við lánveitinguna til Eglu Invest BV. til að leysa félagið undan kröfum Citibank, tók bankinn eins og áður segir veð í 9,88% hlutum félagsins í Kaupþingi.
Engin flöggun átti sér þó stað af hálfu bankans þegar sú veðtaka var gerð. Samkvæmt staðfestingu Fjármálaeftirlitsins á dskj. nr. 27 bárust stofnuninni á tímabilinu 1. júní 2007 til 30. september 2008 engin erindi frá Kaupþingi þar sem óskað var eftir samþykki Fjármálaeftirlitsins á grundvelli 29. gr. fftl.. Hluthafar í Kaupþingi og eftirlitsaðilar voru því leyndir því að bankinn hefði með þessum hætti gripið inn í hlutafjáreign næst stærsta hluthafa bankans og tekið á sig fulla markaðsáhættu af hlutabréfaeign hans í bankanum. Með þessu inngripi var stefnda og stjórnendum Kaupþinga gert kleift að tryggja að hlutir í eigu Eglu Invest BV. færu ekki á markað.
48. Hlutabréf í Kaupþingi sem bankinn lánaði fyrir kaupum á og/eða tók að veði voru ekki dregin frá eigin fé bankans eins og lögskylt var þegar áhættan var hjá bankanum, sbr. 5. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002. Augljóst er að ef hluthafar og stjórnendur Kaupþings hefðu gætt að þessari lagaskyldu hefði eigið fé bankans verið skráð mun lægra og jafnvel lægra en lögákveðið var. Það hefði mögulega þýtt sviptingu starfsleyfis og afskráningu bankans af markaði, löngu fyrir fall hans.
Þá fór veðtaka Kaupþings í eigin hlutabréfum með láninu til Eglu Invest BV langt umfram 10% hámark 55. gr. hfl. og brutu stjórnendur Kaupþings gegn 55. gr. hfl. Stefndi var hlutdeildarmaður í þeim brotum enda gat honum ekki dulist sem fagfjárfestir og næst stærsti hluthafi bankans að þessi endurfjármögnun Kaupþings á Citibank lánunum með veði í hlutabréfum félaga hans í bankanum myndi leiða til þess að brotið yrði gegn 10% hámarki í eigin bréfum skv. 55. gr. hfl.
4.3. Orsakatengsl:
49. Stefnandi byggir á því að fjártjón vegna viðskipta Stapa lífeyrissjóðs með hlutabréf í Kaupþingi sé afleiðing saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda sem rakin hefur verið hér að framan. Séu bein orsakatengsl milli markaðsmisnotkunar stefnda og tjóns Stapa lífeyrissjóðs af kaupum á hlutabréfum í Kaupþingi á því tímabili sem markaðsmisnotkun stefnda átti sér stað.
50. Samkvæmt framansögðu liggur fyrir að minnsta kosti frá ársbyrjun 2008 til 9. október 2008 er bankinn féll hafi stefndi með ýmsum hætti staðið að umfangsmikilli og kerfisbundinni markaðsmisnotkun með hlutabréf í Kaupþingi. Framangreind markaðsmisnotkun stefnda leiddi til þess að þátttakendur á verðbréfamarkaði ýmist 1) keyptu hlutabréf í Kaupþingi á röngum forsendum, sem þeir ella hefðu ekki gert eða 2) keyptu hlutabréf í Kaupþingi á mun hærra verði en þeir ella hefðu gert eða 3) seldu ekki hlutabréf í Kaupþingi sem þeir höfðu áður keypt sem þeir ella hefðu selt ef markaðsmisnotkunar stefnda hefði ekki gætt.
51. Þegar markaðsmisnotkun stefnda hófst átti Stapi lífeyrissjóður hlutabréf í bankanum sem keypt höfðu verið fyrir samtals 4.230.351.569 kr. en á tímabilinu frá 1. nóvember 2007 til og með 7. ágúst 2008 átti lífeyrissjóðurinn viðskipti með hluti í bankanum eins og nánar er rakið í málsatvikalýsingu hér að ofan. Nettó mismunur kaupverðs hlutabréfanna, annars vegar og söluverðs og arðs af bréfunum, hins vegar, nam kr. 902.493.733 þegar Kaupþing féll.
52. Ef verðmyndun á hlutabréfum í Kaupþingi hefði fylgt lögum og reglum um verðmyndun á hlutabréfamarkaði er vafalaust að markaðsverð þeirra á árinu 2008 hefði haft eðlilega fylgni við bókfært eigiðfé bankans eins og það var skráð samkvæmt ársreikningum hans. Með því að kaupa hlutabréfin á markaði á verðum sem helguðust af markaðsmisnotkun stefnda greiddi lífeyrissjóðurinn of hátt verð fyrir bréfin og dró aðrar ályktanir af stöðu bankans sem fjárfestingarkosts á skipulegum verðbréfamarkaði en ella hefði verið ástæða til að gera. Það olli því að tap lífeyrissjóðsins varð stærra er bréfin urðu verðlaus við fall bankans.
53. Sú háttsemi stefnda að sammælast við stjórnendur Kaupþings um að bankinn tæki á sig alla markaðsáhættu af eignarhaldi Eglu Invest BV. á 9,88% hlut í bankanum, í því skyni að forða því að Citibank gengi að hinum veðsettu hlutabréfum í Kaupþingi, olli því að markaðsverð á hlutabréfum í Kaupþingi sem fengið var með markaðsmisnotkun sem dæmd var refsiverð í hæstaréttarmálinu nr. 498/2015 hélst uppi. Ef stefndi og Kaupþing hefðu ekki gripið með fyrrgreindum hætti inn í fyrirætlanir Citibank um að ganga að hinum veðsettu hlutabréfum Eglu Invest BV. vegna vanefnda Eglu Invest BV., hefðu sú markaðsmisnotkun sem bankinn stundaði frá 1. nóvember 2007 og fram eftir árinu 2008 ekki tekist. Lánveiting Kaupþings til Eglu Invest BV. í fyrrgreindu skyni var því forsenda þess að bankanum héldist uppi sú markaðsmisnotkun sem stjórnendur hans urðu berir að og dæmd var refsiverð í málinu nr. 498/2015. Lífeyrissjóðurinn keypti því hlutabréfin í Kaupþingi á árinu 2008 á verði sem haldið var of háu með markaðsmisnotkun stefnda og stjórnenda Kaupþings.
54. Sú háttsemi stefnda að halda ólöglega uppi markaðsgengi hlutabréfa bankans með röngum yfirlýsingum um viðskipti bankans við MAT leiddi jafnframt til þess að lífeyrissjóðurinn seldi ekki bréf sín í Kaupþingi í september 2008. Staðfest er í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 145/2014 að þær blekkingar, sem viðhafðar voru í tengslum við þau viðskipti höfðu eða voru líkleg til að hafa veruleg áhrif á markaðshegðun fólks og leiddu til stórfellds tjóns fyrir almenning. Blekkingar stefnda um meint viðskipti bankans við MAT leiddu því til þess að lífeyrissjóðurinn kaus að eiga hlutabréfin áfram og í þeirri von að hækkun þeirra myndi endurheimta að minnsta kosti kaupverð bréfanna. Sú von brást þegar bankinn féll í október 2008 og hlutabréfin urðu verðlaus.
55. Tilkynning stefnda til almennings um að hinn erlendi fjárfestir MAT hefði keypt ríflega 5% hlut í bankanum var gríðarleg traustyfirlýsing á bankann og sendi þau skilaboð út á markaðinn að staða bankans væri góð og framtíð hans væri björt þegar önnur var raunin. Eftir stefnda var haft í Morgunblaðinu 23. september 2008 að kaup MAT væru „mikil viðurkenning fyrir Kaupþing“.Ennfremur sagði stefndi: „Ég er ekki í vafa um að þessi kaup munu skipta miklu máli fyrir Kaupþing. Bankar og fjármálafyrirtæki út um allan heim hafa legið utan í mönnum í Katar með það fyrir augum að fá þá inn sem hluthafa. Það gefur því góða mynd af styrk Kaupþings að Sheikh Mohammed skuli kaupa hlut í bankanum… Það hefur tekist hjá Kaupþingi að fá góða erlenda fjárfesta inn í hópinn og það mun skipta sköpum í framtíðinni.“ Þessi ummæli reyndust vera hrein blekking.
56. Af þessum ummælum, og fréttaumfjöllun um málið að öðru leyti, er óhjákvæmilegt að ætla annað en að í kjölfar úttektar og grandskoðunar á rekstri Kaupþings hafi MAT, sem sagður var stór alþjóðlegur fjárfestir og titlaður fjármálaráðherra Katar, metið það svo að eðlilegt kaupverð fyrir 5,01% hlut í bankanum væri 690 kr. á hlut sem var litlu lægra en skráð gengi hlutabréfanna í Kauphöll en dagslokagengi síðasta viðskiptadags fyrir viðskiptin nam 714 kr. á hlut, sbr. dskj. 6. Gengið 690 kr. á hlut endurspeglaði ekki það verð sem MAT taldi vera rétt verð pr. hlut í bankanum eftir því sem síðar kom í ljós þegar upplýstist að Qatar Investment Authority hafði örfáum mánuðum áður gert tilboð til bankans sem hljóðaði upp á 399 kr. á hlut. Það verð sem ákveðið var í viðskiptunum átti því rætur að rekja til þeirra kjara sem MAT fékk, þ.e. lánað var að fullu fyrir kaupunum auk þess sem honum voru greiddar 50 milljóna dollara umbun í formiláns til eignalauss félags til frjálsrar ráðstöfunar án nokkurra trygginga vegna ætlaðs fyrirfram greidds hagnaðar af fimm ára afleiðusamningi mill bankans og félags MAT sem þó var aldrei gerður. Var hér bersýnilega um að ræða endurgjald til handa MAT fyrir þátttöku hans í þessum blekkingarleik.
57. Þá er einnig fullsannað að upplýsingar um þessi ætluðu viðskipti bankans og MAT höfðu raunveruleg áhrif á skipulegan verðbréfamarkað. Í hæstaréttarmálinu nr. 145/2014 komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að markaðsmisnotkunin hafi beinst „í senn að öllum almenningi og fjármálamarkaðnum hér á landi í heild og verður tjónið sem leiddi af þeim [þ.e. brotunum] ekki metið til fjár“. Hafi markaðsmisnotkunin verið „þaulskipulögð, drýgð af einbeittum ásetningi og eindæma ófyrirleitni og skeytingarleysi“ eins og segir í dómi Hæstaréttar.
58. Á dskj. 6 er að finna yfirlit yfir dagslokagengi hlutabréfa í Kaupþing í íslensku kauphöllinni frá 1. nóvember 2007 til 3. október 2008. Má þar sjá að gengi bréfanna lækkaði hægt og sígandi allt tímabilið þar til botninum var náð þann 17. september 2008 er gengi á hlut nam 675 krónum. Hækkaði gengið lítillega eftir það og tók svo kipp í kjölfar yfirlýsinga um viðskipti Kaupþings og MAT. Fór gengið þá í krónur 755 á hlut þann 25. september 2008 og hafði þá ekki verið hærra síðan í júní sama ár. Er því augljóst að markaðsmisnotkunin með sýndarviðskiptum Kaupþings og MAT hafði þau áhrif að hlutabréf í bankanum voru talin góður fjárfestingarkostur.
59. Ljóst er því af gögnum málsins um sýndarkaup MAT í Kaupþingi höfðu þau áhrif að almennir hluthafar töldu hagfelldast að eiga hlutabréfin, í stað þess að selja þau. Það má ráða af hvernig velta með hlutabréf í Kaupþingi breyttist eftir tilkynninguna um viðskipti bankans og MAT. Vikuna fyrir viðskiptin, þ.e. frá 15.-19. september 2008 voru að meðaltali 170 viðskipti með bréfin á dag, meðalvelta á dag var 2.667.292.765 kr. og meðalfjöldi bréfa í viðskiptum á dag var 3.897.457. Vikuna eftir viðskiptin fækkaði viðskiptum með hlutabréf bankans og voru þá aðeins gerð 77 viðskipti, 1.064.707.494 kr. og 1.436.110 bréf, sbr. dskj. 7, en á sama tíma hækkaði gengi bréfanna um u.þ.b. 5%. Dró því verulega úr sölu hlutabréfa í Kaupþingi eftir að hinar röngu tilkynningar stefnda um viðskipti bankans og MAT bárust almenningi. Styðja þessi gögn og framvinda mála þá staðhæfingu stefnanda að vegna þessarara markaðsmisnotkunar stefndi, hafi Stapi ekki selt hlutabréf sín í bankanum, sem hann átti þó kost á.
60. Við mat á sönnunarbyrði að því er varðar orsakatengsl verður að hafa hugfast að stefndi er fagfjárfestir, háttsemi var sviksamleg og refsiverð. Að auki hefur verið staðfest af Hæstarétti að háttsemi stefnda gaf, eða var líkleg til að gefa til kynna ranglega eða misvísandi spurn eftir hlutabréfum í Kaupþing. Sé því einhver vafi um það hvort orsakatengsl séu fyrir hendi, verða stefndi að bera hallann af því auk þess sem snúa beri sönnunarbyrðinni við, ef því sem við á.
5. Tjón stefnanda og töluleg kröfugerð:
61. Stefnandi krefst skaðabóta sem nemur þeirri fjárhæð sem Stapi lífeyrissjóður tapaði í kaupum á hlutabréfum í Kaupþingi vegna markaðsmisnotkunar stefnda með bréf í bankanum. Stefnandi fékk hlutina og öll kröfuréttindi, þ.m.t. bótakröfur, framseldar frá Stapa lífeyrissjóði eins og áður segir.
62. Þann 1. nóvember 2007 átti Stapi lífeyrissjóður hlutabréf í bankanum sem hann hafði keypt fyrir samtals kr. 6.391.528.301. Eftir það tímabil og fram til falls bankans keypti lífeyrissjóðurinn til viðbótar hluti fyrir 2.161.176.732 krónur. Á sama tímabili seldi lífeyrissjóðurinn hluti fyrir samtals 5.455.837.008 krónur og fékk greiddan arð sem nam 33.197.560 krónum. Mismunur á kaupverði hlutabréfa í Kaupþingi og söluverði hlutabréfanna á tímabilinu 1. nóvember 2007 til október 2008 nam 902.493.733 krónum.
63. Stefnandi rökstyður tölulega skaðabótakröfu sína með þessum hætti:
5.1. Aðalkrafa – krafa um endurgreiðslu nettó kaupverðs hlutabréfa í Kaupþingi:
64. Í fyrsta lagi, krefst stefnandi þess að stefndi greiði skaðabætur sem gera hann eins settan og kaup Stapa lífeyrissjóðs á hlutabréfum í Kaupþingi hefðu ekki átt sér stað á árinu 2008. Í því sambandi byggir stefnandi á því að lífeyrissjóðurinn hefði aldrei keypt hlutabréf í Kaupþingi hefði honum verið ljóst að hlutabréfaverði Kaupþings væri haldið uppi með aðgerðum stefnda og annarra stjórnenda og hluthafa Kaupþings með saknæmum og ólögmætum hætti. Slík viðskipti sjóðsins hefðu verið andstæð góðum og gegnum viðskiptaháttum lífeyrissjóða og raunar ólögmæt. En með því að helstu stjórnendur Kaupþings og hluthafar, eins og stefndi, leyndu með ýmsum hætti fyrir kaupendum á verðbréfamarkaði, að bankinn væri gerandi í stórfelldri markaðsmisnotkun með eigin hluti og bæri sjálfur nánast alla markaðsáhættu af lánveitingum til hlutafjárkaupa í bankanum, var hvorki Stapa lífeyrissjóði né öðrum utan stjórnenda- eða stórhluthafahóps Kaupþings ljóst hvað væri á seyði í bankanum. Eðli málsins samkvæmt hefði lífeyrissjóður, með lögbundnar skyldur, til að varðveita og ávaxta fé sjóðfélaga sinna aldrei fjárfest í hlutabréfum í Kaupþingi hefði honum verið ljós, sem síðar hefur verið staðreynt, markaðsmisnotkun stefnda með hlutabréf í bankanum svo sem með refsingu stefnda í hæstaréttarmálinu nr. 145/2014 og stórfelldum lánveitingum Kaupþings til Eglu Invest BV. til að viðhalda þeim aðgerðum stjórnenda Kaupþings til að halda uppi markaðsverði hlutabréfa Kaupþings sem lýst var refsiverð í hæstaréttarmálinu nr. 498/2015.
65. Í lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu og lífeyrisréttindi, eins og lögin voru 2008, var kveðið á um fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða í VII. kafla laganna. Þar kemur meðal annars fram að lífeyrissjóði sé heimilt að fjárfesta að hluta til í hlutabréfum á skipulegum verðbréfamarkaði. Í framangreindu felst að lífeyrissjóði var hvorki þá né nú heimilt að fjárfesta í hlutabréfum á skipulegum verðbréfamarkaði ef grunur léki á um eða vitneskja væri um að hlutabréfaverði væri stýrt með saknæmum og ólögmætum hætti, í bága við 117. gr. vvl. Ef lögfullur grunur eða hvað þá vitneskja um markaðsmisnotkun hefði verið til staðar á umræddu tímabili hefði ekki komið til hlutafjárkaupa í Kaupþingi af hálfu Stapa lífeyrissjóðs.
66. Þá liggur jafnframt fyrir að Stapi lífeyrissjóður hefði ekki fjárfest í hlutabréfum Kaupþings á því markaðsverði sem hann gerði nema vegna þess að markaðsverðinu var haldið uppi af stefnda og samverkamönnum hans innan stjórnendahóps Kaupþings með ólögmætum hætti. Ef verðmyndun hlutabréfa bankans hefði byggst á raunverulegri fjárhagsstöðu hans, og eðlilegu framboði á tilboðum um kaup og sölu, hefði hún endurspeglað eigið fé bankans og raunverulegar markaðsaðstæður með eigin hluti bankans. Markaðsverðið hefði þá verið lægra og markaðsvelta minni. Veltumagn hlutabréfa í Kaupþingi á árinu 2008 var hins vegar tilkomið fyrir ólögmætt tilstilli stjórnenda og hluthafa bankans, þ.m.t. stefnda, eins og meðal annars hefur verið staðreynt í hæstaréttarmálunum nr. 145/2014 og nr. 498/2015, og raunveruleg viðskipti ótengdra aðila með hlutabréf bankans því all miklu færri en fjöldi viðskipta á markaði gaf til kynna. Voru markaðsverð og seljanleiki hlutabréfa í Kaupþingi því grundvölluð á blekkingum stefnda og annarra sem stýrðu Kaupþingi með beinum og óbeinum hætti. Hefði því aldrei komið til viðlíkrar fjárfestingar af hálfu Stapa lífeyrissjóðs í hlutabréfum Kaupþings eins og raunin varð nema fyrir þá sök að stjórnendur bankans og helstu hluthafar hans héldu hlutabréfaverðinu uppi með ýmsum aðferðum, á löngu tímabili, sem nú hefur meðal annars verið staðreynt að var saknæmt og ólögmætt að gera.
67. Á þessum grundvelli krefst stefnandi að stefndi greiði sér skaðabætur sem gera hann eins settan og að lífeyrissjóðurinn hefði aldrei stofnað til viðskipta með hlutabréf í Kaupþingi á árinu 2008. Sú bótafjárhæð nemur 902.493.733 krónum en það er sú nettó fjárhæð sem Stapi lífeyrissjóður sat uppi með vegna kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi við fall bankans 9. október 2008.
5.2. Varakrafa – skaðabætur vegna ofgreiðslu kaupverðs á hlutabréfum í Kaupþingi:
68. Í öðru lagi, ef ekki er fallist á framangreint, byggir stefnandi á því að Stapi lífeyrissjóður hafi orðið fyrir fjártjóni þar sem að lífeyrissjóðurinn hafi greitt verulega hærra kaupverð vegna markaðsmisnotkunar stefnda á árinu 2008 en nam því markaðsverði hlutabréfa í Kaupþingi sem sjóðurinn hefði ella greitt fyrir þau við eðlilegar markaðsaðstæður.
69. Ef markaðsmisnotkunar stefnda með hlutabréf í Kaupþingi hefði ekki gætt hefði hlutabréfaverð Kaupþings á verðbréfamarkaði að líkindum endurspeglað bókfært virði Kaupþings eins og það var í útgefnum ársreikningum bankans. Fyrir liggur að Stapi lífeyrissjóður keypti á árinu 2008 alls 2.615.825 hluti í Kaupþingi fyrir 1.999.876.738 krónur sbr. dskj. nr. 22.
70. Bókfært virði hlutafélags er sá mælikvarði sem grundvallar alla jafna virði hlutabréfa þess. Sé miðað við bókfært virði Kaupþings samkvæmt útgefnum árs- og árshlutareikningum bankans sem birtir voru á árinu 2008, þá reiknast bókfært verð á hlut (e. book value pr. share,(BVPS)) á tímabilinu sem hér segir:
a. Ársreikningur 2007, pr. 31.desember 2007. Bókfært verð pr. hlut = eigið fé almennra hluthafa/Fjöldi útistandandi hluta = 356.431.000.000/740.453.053 = 481 krónur pr. hlut.
b. Árshlutareikningur Q1 pr. 31. mars.2008. Bókfært verð pr. hlut = eigið fé almennra hluthafa/Fjöldi útistandandi hluta = 416.922.000.000/740.453.053 = 563 krónur pr.hlut.
c. Árshlutareikningur Q2 pr. 30. júní 2008. Bókfært verð pr. hlut = eigið fé almennra hluthafa/Fjöldi útistandandi hluta = 437.696.000.000/740.453.053 = 591 króna pr. hlut.
71. Samkvæmt útgefnum árs- og árshlutareikningum bankans á tímabilinu 31. desember 2007 til október 2008 nam miðgildi bókfærðs verðs pr. hlut 545 krónum. Markaðsvirði þeirra 2.615.825 hlutabréfa sem Stapi keypti á sama tímabili nam því miðað við bókfært verð pr. hlut alls 1.425.624.625 krónum en ekki 1.999.876.738 krónum sem Stapi greiddi í kaupverð þeirra á markaði, sbr. yfirlitið á dskj. nr. 22. Af þeim ástæðum greiddi Stapi lífeyrissjóður 574.252.113 krónur umfram bókfært virði hlutabréfanna í Kaupþingi sé miðað við miðgildið. Sé miðað við hæsta bókfært verð pr. hlut í Kaupþingi, þ.e. 591 krónu samkvæmt útgefnum árshlutareikningi pr. 30. júní 2008, þá nam kaupverð Stapa á hlutabréfum í Kaupþingi umfram bókfært verð pr. hlut á sama tímabili alls kr. 453.924.163. Er fyrsta varakrafa stefnanda til einföldunar byggð á hæsta gengi bókfærðs verðs pr. hlutar í Kaupþingi samkvæmt 2. árshlutareikningi bankans 2008, sem var 591 króna pr. hlut. Er því krafist skaðabóta vegna ofgreiðslu kaupverðs hlutanna sem nema 453.924.163 krónum.
5.3. Þrautavarakrafa – skaðabætur vegna þess að Stapi lífeyrissjóður var blekktur til að selja ekki hlutabréf sín í Kaupþingi í september 2008.
72. Í þriðja lagi, ef ekki er fallist á framangreint, byggir stefnandi á því að vegna refsiverðrar markaðsmisnotkunar stefnda í viðskiptum kaupþings við MAT sem staðfest var með refsidómum í hæstaréttarmálinu nr. 145/2014, hafi stefndi valdið því með saknæmum og ólögmætum hætti að Stapi lífeyrissjóður seldi ekki í september 2008 hlutabréf sín í Kaupþingi og þannig orsakað fjártjón sjóðsins sem leiddi af því að hlutabréf hans í Kaupþingi urðu verðlaus við fall bankans í október 2008.
73. Í september 2008 var enn virkur markaður með hlutabréf í Kaupþingi eins og sjá má af yfirliti um viðskipti með hlutabréf í Kaupþingi á dskj. nr. 7. Eins og þróun hlutabréfamarkaðar á Íslandi hafði verið á árinu 2008 og horfur voru á fjármálamörkuðum Íslandi og erlendis í september 2008 hefði Stapi lífeyrissjóður að líkindum selt hlutabréf sín í bankanum ef ekki hefði komið til sýndarviðskipta bankans við MAT. Fréttatilkynningar Kaupþings og viðtöl stefnda við fjölmiðla á brotatímabilinu, 18. til 23. september 2008, höfðu þau áhrif, eins og staðfest er í framangreindu hæstaréttarmáli, að blekkja markaðinn og skapa falska tiltrú almennings á bankanum sem fjárfestingarkosti til framtíðar. Eins og þróun á dagslokaverði á hlutabréfum Kaupþings ber með sér, sbr. dskj. 6, má sjá að lækkun þess, sem var nær samfelld frá 2007, stöðvaðist við tilkynninguna um viðskipti bankans og MAT en markaðsgengi hlutabréfanna tók í kjölfarið kipp upp á við.
Er jafnframt ljóst að eftir tilkynningu um viðskiptin fækkaði verulega söluviðskiptum með hlutabréf í bankanum. Er því vafalaust að framangreind markaðsmisnotkun stefnda hafði veruleg áhrif á verðbréfamarkaðinn enda var því slegið föstu í téðum dómi Hæstaréttar að framangreindar yfirlýsingar stefnda hafi verið fallnar til að hafa áhrif á ákvarðanir annarra um viðskipti með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. Það telst því sannað, að markaðsmisnotkun stefnda hafi haft eða mjög líklega haft áhrif á ákvarðanir lífeyrissjóðsins um viðskipti með hlutabréf í Kaupþingi. Af framangreindum ástæðum kaus Stapi lífeyrissjóður að selja ekki hlutabréf sín í Kaupþingi heldur eiga þau áfram enda væri hinn öflugi alþjóðlegi fjárfestir, MAT, kominn í hóp stærstu hluthafa bankans. Bankinn féll hins vegar þann 9. október 2008 og tapaðist þá allt hlutafé lífeyrissjóðsins í bankanum. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að brot ákærðu eigi sér ekki hliðstæðu í íslenskri réttarframkvæmd og að verulegt fjárhagslegt tjón hafi hlotist af brotum ákærðu sem ættu sér engar málsbætur.
74. Ef ekki hefði komið til framangreindrar markaðsmisnotkunar stefnda og stjórnenda Kaupþings með sýndarviðskiptum við MAT hefði Stapi lífeyrissjóður mjög líklega selt hlutabréf sín í Kaupþingi á því markaðsverði sem var fáanlegt þann 18. september 2008 er brotatímabil stefnda hófst. Þann 17. september 2008 var dagslokagengi á hlutabréfum Kaupþings 675 krónur pr. hlut sbr. dskj. nr. 6 en þá var ekki farið að gæta þeirrar verðhækkunnar sem leiddi af vegna markaðsmisnotkun stefnda. Fjöldi hluta sem Stapi lífeyrissjóður átti þá nam 196.108, að nafnverði 1.961.080 krónur, sbr. dskj. nr. 22. Söluverð þeirra hluta samkvæmt dagslokagengi þann 17. september 2008 nam því 132.372.900 krónum. Það jafngildir fjártjóni stefnanda á þessu grunni.
5.4. Þrautaþrautavarakrafa – skaðabætur að álitum:
75. Í fjórða lagi, ef ekki verður fallist á framangreint, er gerð krafa um að stefndi greiði stefnanda skaðabætur að álitum. Ótvírætt er að bótagrundvöllur er fyrir hendi og að Stapi lífeyrissjóður hafi orðið fyrir fjártjóni vegna saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda. Það leiðir beinlínis af niðurstöðu hæstaréttarmálsins nr. 145/2014, hvað sem öðru líður.
76. Verði talið að stefnandi hafi ekki sýnt fram á fjártjón sitt sem leiddi af saknæmri og ólögmætri háttsemi stefnda með þeim dómkröfum og útlistunum á þeim sem greindar eru í stefnunni, þá liggur í öllu falli fyrir að stefnandi hefur gert allt sem í hans valdi stendur til þess að sýna fram á hvert fjártjónið var. Eins og atvikum er háttað í málinu þá fælist í höfnum dómsins á framangreindum kröfuliðum stefnanda að tæpast væri unnt með matsgerð að koma málinu í þann búning að komist yrði hjá því að dæma um kröfuna að álitum. Ætti stefnandi við þær aðstæður rétt á dómi um skaðabætur að álitum úr hendi stefnda.
5.6. Þrautaþrautaþrautavarakrafa – viðurkenning á bótaskyldu:
77. Til þrautavara er gerð krafa viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda gagnvart stefnanda vegna fjártjóns stefnanda sem hlaust af markaðsmisnotkun stefnda með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. á tímabilinu á árinu 2008. Er vísað um bótagrundvöllinn til þess sem áður greinir.
6. Aðild:
78. Málsóknin er reist á því að um einstaklingsbundið tjón hluthafa sé að ræða vegna markaðsmisnotkunar stefnda sem leiddi til þess að sá sem stefnandi leiðir rétt sinn frá annars vegar keypti hlutabréf í bankanum á of háu verði og hins vegar, seldi þau ekki fyrir gjaldþrot bankans með þeim afleiðingum að tapa verðgildi þeirra við fall hans. Að þessu leyti varð það því ekki bankinn sjálfur sem varð fyrir tjóni heldur hluthafarnir sem slíkir, þ.m.t. sá sem stefnandi leiðir rétt sinn frá.
7. Fyrning:
79. Stefnandi byggir á því að krafan sé ófyrnd þar sem hún fyrnist á fjórum árum frá því að tjónþoli fékk upplýsingar um tjónið og þann sem ábyrgð bar á því, sbr. 9. gr. fyrningarlaga nr. 150/2007. Er vísað til viðbótar 12 mánaða fyrningarfrests frá 12. febrúar 2015, frá dómsuppsögu Hæstaréttar í máli nr. 145/2014 að því er varðar stefnda, eftir því sem við á, sbr. 11. gr. fyrningarlaga nr. 150/2007. Stefnandi höfðaði mál á hendur stefnda og fleirum sem þingfest var 5. apríl 2016. Með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 845/2017 dags 11. janúar 2018 var kröfu stefnanda á hendur stefnda og öðrum aðilum vísað frá dómi vegna vanreifunar. Samkvæmt 22. gr. laga nr. 150/2007 hefur stefnandi sex mánuði frá 11. janúar 2018 til að höfða mál að nýju. Byggt er á sömu málsástæðum og lagarökum og gert var í málinu nr. 845/2017.
8. Varnarþing:
80. Um varnarþing er vísað til 2. og 3. mgr. 32. gr. eml. þar sem mælt er fyrir um að íslenskan ríkisborgara sem er búsettur erlendis megi sækja fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur ef hann á ekki skráð lögheimili í annarri þinghá. Stefndi á lögheimili í Sviss. Ennfremur er vísað til 41. gr. laga nr. 91/1991.
9. Lagarök:
81. Stefnandi styður mál sitt við meginreglur skaðabótarréttar um skaðverk utan samninga, reglur um strangt sakarmat og vægari kröfur til sönnunar á orsakatengslum og sennilegri afleiðingu og öfuga sönnunarbyrði o.fl. Þá er vísað til laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, einkum 117. gr., sbr. og rgj. 630/2005. og 4.mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um sönnunargildi dóma. Jafnframt er vísað til ákvæða laga um hlutafélög nr. 2/1995 og ákvæði laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Viðurkenningarkrafa styðst við ákvæði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um almenna vexti styðst við 8. gr. laga nr. 38/2001 og krafa um dráttarvexti styðst við 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Málskostnaðarkrafa styðst við 129., sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styðst við ákvæði laga nr. 50/1988.
82. Samkvæmt 44. gr. laga nr. 91/1991 þarf ekki að sanna það sem er alkunnugt á þeim stað og tíma sem dómur eða úrskurður gengur. Það gildir um lánveitingar Kaupþings til Eglu Invest B.V. til að endurfjármagna skuldir félagsins við Citibank.
10. Sönnunargögn:
83. Stefnandi mun við þingfestingu m.a. leggja fram, auk stefnu og skjalaskrár, dóma Hæstaréttar í máli 145/2014 og 498/2015, yfirlit um viðskipti Stapa með hlutabréf í Kaupþingi 2007 og 2008, yfirlit um dagslokaverð Kaupþings í kauphöll á árunum 2007 og 2008, og önnur gögn sem skipta máli sbr. nánari útlistun í skjalaskrá á dskj. 2.
11. Stefnubirting:
84. Stefndi á, eins og greinir í upphafi stefnunnar, lögheimili í Sviss. Í þjóðskrá á Íslandi er einungis getið um að stefndi eigi lögheimili í Sviss en ekkert er skráð um heimilisfang hans þar í landi. Lögmaður stefnda hefur hafnað því að skrifa upp á stefnuna eða upplýsa um raunverulegt heimilisfang stefnda í Sviss.
85. Sviss er aðili að Haag samningnum frá 15. nóvember 1965 um stefnubirtingar á réttar- og utanréttarskjölum í einka- og verzlunarmálum. Samkvæmt 1. gr. Haag-samningsins verður heimilisfang stefnds manns að vera þekkt svo um birtingu geti farið samkvæmt samningnum. Í Sviss eru upplýsingar um lögheimili manna þar í landi ekki aðgengilegar í opinberum skrám fyrir almenning en hvert og eitt 26 sjálfstjórnarsvæða (kantónur) landsins hefur eigin stjórnsýslu sem ekki er miðlæg. Stefnandi leitaði því til utanríkisráðuneytisins um aðstoð við að hafa uppi á lögheimili stefnda í Sviss. Svar ráðuneytisins var að það hefði „ekki tök á að afla upplýsinga um heimilisföng íslenskra ríkisborgara sem búsettir eru erlendis“. Hvorki er því að fá aðstoð frá íslenskum né svissneskum yfirvöldum við að leita uppi hvar stefndi er skráður til lögheimilis í Sviss.
86. Sviss hefur nýtt sér andmæli við öðrum leiðum til birtingar fyrir mönnum búsettum í löndunum en Haag-samningurinn gerir ráð fyrir, sbr. 10. gr. Haag-samningsins. Í því felst að jafnvel þó að aðrar leiðir til þess að birta fyrir stefnda í Sviss, svo sem í lögbirtingablaði í viðkomandi kantónu í Sviss, samkvæmt reglum um menn óstaðsetta í hús, eru ekki færar vegna ákvæða 10. gr. samningsins. Jafnvel þó að 10. gr. samningsins girti ekki fyrir birtingu með öðrum leiðum þyrfti engu að síður að vera ljóst í hverri af 26 kantónum landsins stefndi hefði fasta búsetu og birta stefnuna í lögbirtingablaði í þeirri kantónu og á því tungumáli sem teldist þar vera opinbert tungumál. En í Sviss eru tungumálin fleiri en þrjú og er opinbert tungumál mismunandi eftir kantónum sem hver um sig er sjálfstjórnarsvæði. Er því ómögulegt fyrir stefnanda að koma við birtingu gagnvart stefnda í því landi sem hann á lögheimili eftir reglum um birtingu fyrir mönnum með óþekkt heimilisfang, væru þær reglur til staðar.
87. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki aflað upplýsinga um það hvar stefndi á lögheimili í Sviss. Liggur og fyrir að samkvæmt Haag-samningnum verður stefnubirtingu ekki komið við gagnvart stefndum nema heimilisfang hans sé þekkt vegna andmæla Sviss við öðrum birtingaraðferðum sbr. 10. gr. samningsins. Eru því skilyrði 89. gr. laga nr. 91/1991 um stefnubirtingu í Lögbirtingablaðinu uppfyllt.
12. Áskilnaður:
88. Stefnandi áskilur sér rétt til framlagningar frekari gagna á síðari stigum málsins, að hafa uppi frekari málsástæður og lagarök og kalla aðila og vitni til skýrslugjafar, allt eftir því sem frekari framvinda málsins krefst. Þá er jafnframt gerður áskilnaður um að breyta og/eða auka við dómkröfur eða aðild, með eða án framhaldsstefnu eða sakaaukastefnu á síðari stigum málsins.´´ Segir m.a. í stefnunni en Ólafur hefur frest til 13. september n.k. til þess að skila inn sinni greinargerð og mæta í Héraðsdóm Reykjavíkur.
 
 
 
 

Ritstjórn Fréttatímanns

Fréttatíminn er óháður miðill.