Er verkalýðshreyfingin að færast í fremstu víglínu stjórnmálaátaka á ný?

Ritstjórn Fréttatímanns1 ár síðan8 min

Er verkalýðshreyfingin að færast í fremstu víglínu stjórnmálaátaka á ný?

Fram eftir 20. öldinni var verkalýðshreyfingin í fremstu víglínu stjórnmálaátaka á Íslandi. Hún var það afl, sem tryggði Alþýðuflokki og Sameiningarflokki alþýðu-Sósíalistaflokki og síðar Alþýðubandalagi mikil pólitísk áhrif. Þetta var tímabil harkalegra átaka á vinnumarkaði og langra verkfalla.
Á seinni hluta Viðreisnaráranna varð breyting á en veturinn 1978 fór aftur í sama farið, sem leiddi til falls meirihluta Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík þá um vorið og mikils fylgistaps í þingkosningum um sumarið.
Meirihlutinn í borgarstjórn var endurheimtur vorið 1982 og Sjálfstæðisflokkurinn náði fyrri styrk á ný í þingkosningunum 1983. Þjóðsáttarsamningarnir svonefndu voru gerðir snemma árs 1990 en segja má að eftir harkaleg átök veturinn og vorið 1978 hafi verkalýðshreyfingin smátt og smátt horfið úr fremstu víglínu pólitískra átaka.
Nú er margt sem bendir til að breyting sé að verða á að nýju og að verkalýðshreyfingin sé að færast í fremstu víglínu pólitískra átaka aftur. Að einhverju leyti er ástæðan sú, að þau tengsl, sem áður voru á milli hreyfingarinnar og svokallaðra verkalýðsflokka, þ.e. forvera Samfylkingar og VG hafa rofnað.
Ný kynslóð verkalýðsforingja hefur bersýnilega komist að þeirri niðurstöðu að þeir eigi ekki annarra kosta völ.
Þetta er alvarlegt umhugsunarefni fyrir stjórnmálastéttina.

Stórpólitísk stefnuyfirlýsing Drífu Snædal

Stefnuyfirlýsing sú, sem Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins og frambjóðandi til forseta ASÍ á þingi þess í haust sendi frá sér fyrir nokkrum dögum er stórpólitísk að efni til. Þar segir m.a.:
„Síðustu áratugi hefur hallað undan fæti í samfélaginu hér heima og heiminum öllum. Græðgi er talin til kosta og auðurinn hefur safnast á fáar hendur…Hættan er sú að til verði tvö aðskilin samfélög ríkra og fátækra, þar sem hinir efnameiri kaupi sig fram fyrir röðina í heilsugæzlu, menntun og annarri almannaþjónustu.
Okkar bíður það verkefni að auka lífsgæði hinna mörgu og stemma stigu við græðgi hinna fáu.“

Í þessari stefnuyfirlýsingu forsetaframbjóðanda hjá ASÍ er meira fólgið en þröng krafa um kjarabætur. Þetta er krafa um stefnubreytingu í samfélagsmálum, sem mun finna hljómgrunn víða.
Fyrir nokkrum dögum birtist á Facebook eins konar árétting frá Sjálfstæðisfélagi Kópavogs, þar sem minnt var á að grunngildi sjálfstæðisstefnunnar væru stétt með stétt og „án mismununar“.
Stjórn þessa sjálfstæðisfélags virðist hafa séð ástæðu til að senda frá sér slíka áminningu.
En það verður líka fróðlegt að sjá hver viðbrögð hinna hefðbundnu vinstri flokka verða við stefnuyfirlýsingu Drífu Snædal.
Það má færa rök fyrir því að þingmenn bæði Samfylkingar og VG hafi tekið fullan þátt í einhverju sem sumir mundu kalla græðgi stjórnmálastéttarinnar.
Og hverjir tóku ákvörðun um þá gífurlegu eignatilfærslu, sem fólst í frjálsu framsali kvótans 1990?
Það voru ekki sízt Alþýðubandalag og Alþýðuflokkur.“ Segir Styrmir Gunnarsson, f.v. Ritstjóri Morgunblaðsins.

Ritstjórn Fréttatímanns

Fréttatíminn er óháður miðill.