Aðsendar greinarÞjóðin getur ekki átt neitt, hvorki fiskinn í sjónum eða rafmagnið

Ritstjórn Fréttatímanns5 mánuðir síðan10 min

Umræða hefur verið um svokallaðan Orkupakka 3 undanfarnar vikur, þar sem að Sjálfstæðisflokkurinn er í fararbroddi með að einkavæða rafmagn landsmanna eins og gert var með fiskinn í sjónum. Þar var búið til kvótakerfi til þess að örfáar fjölskyldur gætu braskað með sameign þjóðarinnar, veðsett hana og selt með stjarnfræðilegum hagnaði. Næst verður raforkan og þjóðin veit það!
Jón Gunnarsson, f.v. frkv.stj. skrifar

 

Núna er nefnilega það sama upp á teningnum, það á að einkavæða raforkuna og svo í framhaldinu verður lagður sæstrengur og raforkan seld til ESB landa. Sjallarnir sem að varhugavert er að treysta eins og sagan sannar, lofa að enginn sæstrengur verði lagður og segjast vera með einhverja fyrirvara sem að haldi alveg pottþétt. Þetta er svo mikil fásinna að halda slíku fram að það gengur fram af manni. Guðlaugur Þór er eins og Ólafur Ragnar í Næturvaktinni þegar að hann er að reyna að fá ömmu sína sem er með heilabilun, til þess að skrifa upp á 17 milljóna stökkbreytt bílalán. Vitsmunirnir virðast vera á pari miðað við málflutninginn og Ólafur Ragnar klikkir út með því að segja til skýringar ,,Amma á bara eftir að græða á þessu.“ En skaðinn verður þó meiri í tilfelli Guðlaugs.

Þetta eru örugglega sömu fyrirvararnir og áttu að tryggja að til Íslands átti ekki að flytja óhindrað kjöt frá löndum ESB, nú flæðir hér inn kjöt þaðan skv. Evróputilskipunum og það voru einmitt Sjálfstæðismenn sem að vöruðu sérstaklega við því sjálfir að ef að við gengjum í ESB, þá fengjum við engu ráðið og enginn mundi hlusta á nokkrar hræður norður í ballarhafi. Hvað hefur breyst? Peningagræðgi?

Nú er það vitað að menn tengdir Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum hafa verið að kaupa jarðir þar sem að eru góðir virkjunarkostir. Ætli það sé ekki það sem að hangir á spítunni, hömlulaus græðgin sem að drífur þessa menn endalaust áfram.

Bjarni Benediktsson fór allt í einu að sýna á sér nýja hlið og fór að ræða um þjóðarsjóð og að tekjur af auðlindum landsins ættu að renna í þann sjóð. Ég hugsaði þá, að best væri batnandi mönnum að lifa en tók öllu sem að hann sagði með miklum fyrirvara af auðskiljanlegum ástæðum. Það næsta sem að gerist er það að Flokkurinn hans er að reyna að nauðga í gegn einhverjum Orkupakka sem að 80% þjóðarinnar a.m.k. er á móti, alveg eins og kvótakerfinu.

Það á sem sagt ekkert að hugsa um þjóðina, enda segir þetta fólk í Sjálfstæðisflokknum að þjóðin geti ekki átt neitt, hvorki raforkuna eða fiskin í sjónum. Hvílíkur hroki og yfirgangur hjá þessu fólki sem er í vinnu hjá okkur á ofurlaunum og hvílík skömm fyrir þá sem að hafa kosið þennan flokk. Það hefur einnig verið sérstaklega gefið út opinberlega af forystumönnum flokksins að það verði ekkert hlustað á kjósendur. Hugsið ykkur hrokann!

Er þetta fólk ekki að vinna í umboði kjósenda? Það er allavega þannig þegar að það er krafið um að segja af sér eins og í nýlegu dæmi um Sigríði Andersen, þá var hún með stólinn vegna umboðs frá kjósendum, sagði hún. En svo þegar að á að nauðga einhverjum gjörningum í gegnum Alþingi til þess að féfletta þjóðina, þá gildir það umboð ekki og ekki hlustað á þá sem að gáfu þessu fólki umboðið til að starfa fyrir þjóðina. Þetta fólk misskilur alveg hlutverk sitt í því þjónustustarfi sem að það er í fyrir land og þjóð. Hvar er nýja stjórnarskráin? Væri ekki hægt að leggja vinnu í hana í stað þess að plotta með það að féfletta þjóðina enn einu sinni?

Kvótakerfið átti að vera um stundarsakir á meðan að fiskistofnarnir næðu sér á strik, það er búið að vera á í yfir 30 ár. Það er ekki alltaf allt að marka sem að stjórnmálamenn segja og um 80% þjóðarinnar treystir þeim ekki. Þjóðin vill hvorki hafa þetta ónýta kvótakerfi sem að var sérhannað fyrir braskara til þess að búa til kvótaelítu eða Orkupakka sem að er verið að hanna í sama skyni.

Orkupakkinn er ekki fyrir fólkið í landinu. Alveg eins og að kvótakerfið er ekki fyrir fiskinn í sjónum, enda hefur ástandið aldrei verið verra en eftir að kerfið var sett á með tilheyrandi brottkasti og svindli. Formaður LÍÚ sem heitir núna SFF, sagði að þjóðin gæti ekki átt neitt og átti þar við fiskinn í sjónum, kvótann. Samt stendur í 1. grein laga um sjávarauðlindina að hún sé sameign þjóðarinnar, eitthvað hefur laganámið skolast til hjá lögmanninum og formanni LÍÚ sáluga.

Þið hafið treyst fólki fyrir umboði ykkar sem að mun hafa neikvæð áhrif á líf barna ykkar og komandi kynslóðir. Fólki sem að trúir því og vinnur eftir þeirri sannfæringu, að Þjóðin geti ekki átt neitt, hvorki fiskinn í sjónum eða rafmagnið.

Jón Gunnarsson, f.v. frkv.stj.

 

Ritstjórn Fréttatímanns

Fréttatíminn er óháður miðill.

Má bjóða þér að styrkja óháða blaðamennsku?

Hefur þú áhuga á að hjálpa Fréttatímanum að vaxa og dafna?
Með því að styrkja Fréttatímann stuðlar þú að frjálsri og óháðri umfjöllun.

Styrkir fara í gegnum Paypal og eru í Bandaríkjadollar. Unnið er að því setja upp styrki í íslenskri mynt.