FréttirInnlentGarðhúsgögn og trampólín geta fokið í þessum vindstyrk

Ritstjórn Fréttatímanns3 vikur síðan6 min

 

Hugleiðingar veðurfræðings
Í morgunsárið var 980 mb lægð stödd syðst á Grænlandshafi. Lægðin er enn að dýpka og færist nær okkur. Í dag gengur í allhvassa eða hvassa suðaustanátt á Suður- og Vesturlandi með talsverðri eða jafnvel mikilli rigningu. Lausir munir geta fokið í þessum vindstyrk, t.d. garðhúsgögn og trampólín og því rétt að festa slíka hluti eða koma í skjól. Vindhviður við fjöll geta náð um eða yfir 30 m/s, t.d. við Eyjafjöll, á Kjalarnesi og við Hafnarfjall og getur verið varasamt að vera þar á ferðinni, sérílagi á ökutækjum sem viðkvæm eru fyrir vindi.

Á Norður- og Austurlandi verður hið ágætasta veður fram eftir degi, mun hægari vindur og þurrt að kalla.
Í kvöld hefur vindstyrkur jafnast út og má þá búast við strekkingsvindi víða um land. Mjög vætusamt verður þá á öllu landinu þegar hið volduga regnsvæði lægðarinnar hefur náð að breiða sig yfir það allt.

Umrædd lægð mun halda áfram að ráða öllu í veðrinu hjá okkur í byrjun næstu viku. Á mánudag er útlit fyrir sunnan strekking eða allhvassan vind. Þó ber að taka fram að norðvestanvert landið og vesturströndin verður væntanlega í mun hægari vindi – nokkurs konar svikalogni inni í lægðarmiðunni. Áfram rignir víða með þokkalegum hita eða 10 til 14 stig. Á norðaustanverðu landinu á mánudaginn er hins vegar útlit fyrir þurrt og bjart veður og allt að 20 stiga hita í hnjúkaþey (svo kallst hlýr vindur sem stendur af fjöllum).

Veðurhorfur á landinu
Vaxandi suðaustanátt og fer að rigna, 13-20 m/s eftir hádegi og talsverð rigning, en sums staðar mikil úrkoma sunnanlands. Mun hægari vindur og þurrt að mestu á Norður- og Austurlandi fram eftir degi. Suðaustan 8-15 í kvöld og mjög vætusamt á landinu. Hiti 8 til 15 stig.

Sunnan 10-18 m/s á morgun, en lengst af hægari vindur norðvestan til og með vesturströndinni. Víða rigning og hiti 10 til 14 stig, en þurrt og bjart um landið norðaustanvert með allt að 20 stiga hita. Spá gerð: 25.08.2019 09:29. Gildir til: 27.08.2019 00:00.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á þriðjudag:
Sunnan 8-15 m/s og rigning SA-lands, en úrkomulítið NA til. Norðaustan 5-10 á Vestfjörðum, annars hægari vindur og skúrir á V-verðu landinu. Hiti 8 til 17 stig, hlýjast NA-lands.

Á miðvikudag:
Suðaustlæg eða breytileg átt, 3-10 m/s og skúrir eða dálítil rigning, en þurrt að kalla NA til. Hiti 8 til 15 stig, hlýjast NA-lands.

Á fimmtudag:
Norðaustlæg eða breytileg átt og lítilsháttar væta víða um land. Kólnar fyrir norðan.

Á föstudag:
Norðaustanátt með dálítilli rigningu á víð og dreif. Hiti 6 til 15 stig, hlýjast á Suðurlandi.

Á laugardag:
Útlit fyrir vaxandi norðaustanátt með talsverðri rigningu á A-verðu landinu, en annars úrkomuminna og heldur kólnandi veður.
Spá gerð: 25.08.2019 08:12. Gildir til: 01.09.2019 12:00.

 

Ritstjórn Fréttatímanns

Fréttatíminn er óháður miðill.

Má bjóða þér að styrkja óháða blaðamennsku?

Hefur þú áhuga á að hjálpa Fréttatímanum að vaxa og dafna?
Með því að styrkja Fréttatímann stuðlar þú að frjálsri og óháðri umfjöllun.

Styrkir fara í gegnum Paypal og eru í Bandaríkjadollar. Unnið er að því setja upp styrki í íslenskri mynt.