AfþreyingFólkHreppsnefndin var læst inni frá kl.15 til 2 um nótt – Sjö dyraverðir stóðu vörð í 11 tíma

Ritstjórn Fréttatímanns1 vika síðan45 min

 

Gamla fréttin er úr Þjóðviljanum 12.mars 1976 – Saga um verkalýðsbaráttuna á Patreksfirði og gott að rifja það mál upp svona síðla á föstudegi.

,,Stundum hefur sólin skinið en stundum myrkrið lokað öllu“  

Tekið var viðtal við Þórð Guðbjartsson, einn af þekktari persónum Patreksfjarðar fyrr og síðar og fóstri Jóns úr Vör og þess er getið neðst í greininni ásamt vísum en Jón tileinkaði Þórði ljóðabókina : ,,Þorpið“ enda kemur hann ansi mikið við sögu í henni. Viðtalið er síðan í mars 1976

Ef við eigum erindi vestur á Patreksfjörð er ekki ósennilegt að við sjáum á götu lágvaxinn, gamlan mann með snjóhvíta hárlokka sem hrynja niður á axlir og mikið og fagurt hvítt skegg. Og ef við lítum í augun á þessum hára þul og rýnum í þær rúnir, sem ristar hafa verið á enni hans/ hljótum við að álykta að hér fari harðger maður sem kunni frá mörgum stormi að segja. Það er rétt til getið.

Maðurinn er Þórður Guðbjartsson verkamaður á Geirseyri. Í æsku var hann niðursetningur, strauk að heiman um fermingu/ braust til sjálfstæðis og var í fararbroddi hetjulegrar verkalýðsbaráttu. Þó að hann sé nú hálfníræður (1976) vinnur hann enn í frystihúsi og sér um heimili. Hann eldar matinn í börn sín og barnabörn og er hvergi myrkur í tali. Þórður lifir í kóngsriki andlegrar reisnar. Hann er sagnaþulur/ vísnasjóður og rímnamaður góður. Blaðamaður Þjóðviljans átti fyrir skömmu viðtal við Þórð og fer það hér á eftir.  (Viðtalið var tekið í mars 1976)

Hvar hófst saga þín, Þórður?  Hún byrjar þannig: Það var dimmur desember mánuður árið 1891 og þar heitir Fjörður i Múlahreppi i Barðastrandarsýslu. Ég fékk fljótt mætur á fólki jafnvel í æsku, en fyrirlitningu á sumum. Það varð mitt hlutskipti að ég var heima nokkra mánuði… Siðan kom óhapp fyrir föður minn og við vorum tekin frá foreldrunum, ég og systir min sem hét Ingibjörg og er dáin fyrir 30 árum.

Manni var sagt að hann hefði fótbrotnað. Ekki hef ég sannanir á þvi, ég hafði engin sambönd við heimilið. Aðrir sögðu að það hefðí verið af of mikilli ómegð. Hann var i húsmennsku, fékk ekki bújörð. Það var ekkert líf. Jæja, og það verður úr að hún fer á bæ, sem heitir Illugastaðir, til Guðmundar Arasonar, en ég til Guðmundar hreppstjóra Guðmundssonar sem bjó á Svínanesi. Það var venja að bjóða upp sveitaómaga um hver hreppsskil, og þá kom i hlut þeirra að fara stað úr stað.

Ekkert hefur lifað á Íslandi eins lélegu og mannúðarlausu lífi og sveitarómaginn, ungur og gamall. Mér er minnisstæð mín ævi. Mér er minnisstæð meðferðin á Jóni Sigmundssyni. En svoleiöis var að gamalt fólk var oft til hálfs hjá hverjum bónda. Annar átti kannski heima í Vattarnesi og hinn í Skálmardal. Á milli þessara bæja skyldi þessi maður vera leiddur án tillits til þess hvernig veðrið var, þvi að hann mátti ekki éta sig inn í vikuna sem kallað var.

Ef hann var ekki kominn í tæka tið í þá vist, sem hann átti að vera í þá viku, þá varð hann að éta sig inn hjá hinum. Svo lélegt sem barnið átti þá hefur hinn útslitni átt verri ævi. Konan i Svinanesi. Sæunn hét hún, var reglulegt valkvendi og alveg frábrugðin þeirra tima
fólki. Hún kom i veg fyrir að ég væri boðinn upp árlega.

Varstu lengi í Svínanesi?  Þar var ég til fermingar aldurs. Þá kom það fyrir að ég átti að fara af hreppnum og heim til að vinna fyrir systkinum minum, sem ekki voru orðin fær um það, svo að þau þyngdu ekki hreppsfélagið. Því undi ég illa, var eitt ár heima og strauk.

Ég hef aldrei þolað mikla valdbeitingu. Ég hafði vanist allt öðru en þar og sárnaði svo að vera sviptur mínum Ieikfélögum og æskumönnum eins og krökkunum hreppstjórans. Gott er að vera góðum hjá, en geta sneitt hjá hinu. Sárt er að vera sviptur frá sínum bestu vinum.
Hvert fórstu?  Ég strauk með manni, sem var mér góður, í Hergilsey. Siðan komst ég í vist í Sauðeyjum í 3 ár með ágætri líðun. Þá er ég nú í ýmsum stöðum. Ég kunni varla að lesa þegar ég var 17 ára, ekki nema með vandræðum, og öngvan staf skrifað. Nei, sveitarómagar hafa ekkert með það að gera að vera að læra.

Guðmundur, sem ég var hjá sem strokumaður i Sauðeyjum, gaf mér forskrift. Það var mikil bót. Ég fékk mér spjald og griffil, sem þá var notað við reikning, og reikningsbók. Ég fann þetta út með tímanum. En hvað um það: Þetta voru nú köld kjör og þetta allt saman i rauninni smánarblettur á þjóðfélaginu, að halda þjóðfélagsþegnunum i þessum hefðbundnu þrælafjötrum sem voru frá fyrstu tíð. Ég tel það. Vinnumennskan var þrælafjötur þó að heiðarleg heimili væru til.

Hvenær komstu hingað til Geirseyrar?  Hingað komst ég 1909 og siðan hef ég bjargað mér alveg á eigin spýtur. Ég keypti mér lausamannsbréf: „Heimilt skal Þórði Guðbjartssyni að leita sér að atvinnu innan sýslumarka Barðastrandarsýslu“. Lengra náði það ekki.

Færi ég suður á vertíð, þá var ég syndinni seldur. Ég var ólöglegur lausamaður en löglegur meðan ég hafði þetta i vasanum. Bréfið kostaði 17 krónur og var ekki litið að ætla sér þegar engir peningar voru borgaðir. En ég get sagt þér frá hvernig ég komst yfir þetta. Það er ekki markvert. Ég átti kind og hún var geld, missti lambið ár eftir ár. Þegar ég slátraði henni um haustið þá var það maður sem kaupir hana af mér, skrokkinn, gæruna og allt saman fyrir þessa peninga. Annars hefði ég aldrei komist yfir það.

Þegar ég kom hérna fyrst átti ég þrennar stagbættar buxur, eina blússu, tvenna roðskó, eina skinnskó og engin spariföt, öngvan eyri og þekkti engvan. Þetta voru kaldir tímar. Hvernig var umhorfs á Geirseyri þegar þú komst? Þannig var ástatt að 26 íbúðir voru á staðnum. Þar af voru 8 torfkofar. Ekki var upphitun i nokkru húsi nema þar sem efnin voru best svo sem i Valhöll sem stendur enn hérna, Þrúðvangi, sýslumannshúsinu og læknishúsinu sem er hérna niður frá.

Hin voru flest upphitunarlaus nema þar sem hlóðin voru inni i torf kofunum. Þá voru þau aflið. Sumir kofarnir láku i rigningum. Þá myndaðist for á moldargólfinu. Væru hundur og köttur, þá höfðu þeir sina hentugleika á moldargólfinu að öllu leyti. Þetta var óvistlegt að mínum dómi. En þetta var nú ekki eingöngu svona hér. Þetta var svona um land allt.
Hvernig var vinna fólksins?  Ég get nefnt saltburðinn. Norskt skip kom með salt i marsmánuði. Nú flaut það ekki að bryggjunni á Geirseyri. Þá kom uppskipunarskip, áttræðingur sem hét Hringhorni. Það var farið um borð i norska skipið á honum, mæld 160 pund i mál og sturtað i poka. Báturinn kom upp með bryggjunni. Þá komu karl og kona. Hann flaut ekki vel að. Það varð að vaða út i hann i frostinu. Pils kvennanna flutu i sjónum i kringum þær þegar þær voru að vaða eftir pokunum sinum i bát inn. Hvernig mundi þér lika að farið væri svo með dyggðadömur nútímans? Daginn eftir var sárakaka á móts við baggana á hakinu. Skinnlaus skrokkur.

Hyggilegra hefði verið að hafa heysikrana á bryggjunni og heysa pokana upp. þvi að þar var járnbraut og hægt að aka þessu inn í hús. En það var ekki verið að hugsa um það. Það var bara að láta þrælana hafa það, enda þótt það væri fjártjón vegna vitlausra vinnubragða. Ég sé fyrir mér konurnar ganga með pokana á bakinu i röð upp i húsið.  Fyrir vestan fæ ég séð fölar mest á vanga, eins og hesta áburð með i stórlestum ganga.  Við sáum nú hvernig hestarnir voru. Ég fór með 12 i lest. Ég rak þá nú reyndar alla þegar ég var að fara með heybandið á Svínanes. Reyndi fólkið ekki að bindast samtökum gegn þessu? Það þorði það ekki.

Svo áttum við nokkrir samleið að stofna verkalýðsfélag i janúar 1917, í húsi sem er hérna fyrir neðan, en var bara torfkofi þar, Þar bjó Markus Jósefsson. Benedikt Sigurðsson var kosinn formaður félagsins.

En fólkið skildi ekki þessa nauðsyn. Það var hrætt við samtökin. Það var engin leið að fá það til að skilja að með samtökunum væri það öruggt um betri lífskjör. Fólkið hélt að kaupmaðurinn væri eini bjargvætturinn og eina hjálparhellan. Svo sáu atvinnurekendurnir sinn hag i að láta þá öngva fá vinnu sem voru i félaginu. Hið nýstofnaða Alþýðusamband var ekki orðið nógu sterkt til að hjálpa upp á sakirnar. Þar með fækkaði einum og einum og félagið dó. Það var svo endurreist um 1919 en dó aftur. Og þá komst það ekki á fót fyrr en 1928.

Voru margir atvinnurekendur á Patreksfirði?   Pétur A. Olafsson hætti sinum atvinnurekstri á Geirseyri 1917 og þá varð Ólafur Jóhannesson á Vatnseyri einvaldur. Það var enginn verslun önnur svo að teljandi sé. Pétur og Ólafur höfðu ekki verið algerlega samherjar.
Annar vildi meiri kúgun en hinn. Með einokunarverslun Ólafs fengust aldrei frá honum peningar, og sífellt hækkaði varan. Þá kom fyrst hugmyndin að kaupfélagi. Það var stofnað i skúrnum sem er hjá honum Páli Guðfinnssyni. Við vorum 7 menn sem grófum fyrir þessu með því að panta fyrir 40 krónur á mann og fékkst varan frá heildsala i Reykjavík.

Ólafur Jóhannesson hafði ríkisskipa afgreiðsluna og þetta ætlaði að verða óhugnanlegt ástand þvi að hann vildi eiginlega ekki láta vöruna inn i sín hús. Svo fengum við að taka hana og var henni skipt í húsum Péturs A. Ólafssonar á Geirseyri. Hver kom með sinn poka. Þar var bankabygg, eitthvað sáralítið af hrísgrjónum, eitthvað sykur og rúgmél. Ekki var það nú annað.
Nú kom til að fá atvinnu hjá Ólafi. Ekki einn einasti af þessum sjö fékk hana, ekki nokkur. Þeir sem börðust fyrir kaupfélaginu fengu ekki handtak.

Ég man eftir að Ólafur sagði við mig og Gest Gestsson: „Þið ættuð aldrei að koma hér ofan eftir.“ Og sagði við Gest: ,,Ég fyrirbýð þér aðstiga fæti á mína lóð.“ Þá segi ég sisona: „Jæja, Ólafur. Nú ætlar guð að gefa góðan þurrk i dag.“, því að það var fiskur. Þá segir hann og rigsar til á meðan: „Þú ættir aldrei að nefna guð.“

Og ég verð svo djarfur að segja: ,,Ég fer ekkert að spyrja þig að því.“
En þetta var ekki neitt. Við ætluðum á síld á Hesteyri og viðar og fórum. En þá er búið að hringja þangað og biðja um að hafa eftirlit með okkur. Ekki veit ég hvers vegna. Ekki vorum við dæmdir fyrir neitt afbrot. Þetta var afbrotið. Það var þungt i vöfum með þann sem átti öll ráð. Ég segi ekki á himni og jörðu, en hann átti öll ráð. Hann átti ráð á því hvurt fólkið gat fengið að éta eða ekki.

Svo tapaði hann. Ég vorkenni það.

En allir sjá, bæði nú og fyrr, að það var lífsnauðsyn að laga það sem gilti. Þrælahald og níðingsskap átti ekki að liða lengur i því þjóðfélagi sem var i framför. Það er mín skoðun. En svona var það. Þeir sem baráttuna háðu höfðu ekki nema hita og þunga dagsins. Það var venja. Við vöktum um nætur ef skip væri komið, til þess að komast ofan eftir i von um að fá vinnu. Við sem vorum fyrstir á bryggjuna vorum látnir fara heim. Það var ekkert tekið tilli til þess.

Kambsbræður áttu mikinn þátt i að stofna kaupfélagið, því að þeir voru menn sem kunnu ekki við að lata kúga sig.
Kambsbræður?  Faðir þeirra kom hingað frá Hornafirði. Hann hét Einar Sigurðsson, afarmenni mikið. Hans synir voru Sigurður, Guðfinnur, Helgi, Einar, Benedikt, Sveinn og Lúðvík. Svo átti hann tvær dætur. Þeir stóðu ákaflega framarlega i verkalýðsmálum voru stéttvísir menn.

Benedikt var hörkukarl. Hann var geysilega þrekinn og Ólafur Jóhannesson, atvinnurekandinn, sagði að hann mundi borga honum tveggja manna kaup. Það var 45 tonna kútter hérna og Benedikt tók seglið niður af gaflinum, bómunni og mastursböndunum, rúllaði því upp, flutti það einn i land á bát og bar það upp i seglahús en það munu hafa verið 2-300 metrar. Það var venjulegt að láta 3 menn undir seglið. Hann bar það einn, braut það i tvennt og slengdi því á öxlina. Þetta er satt, enda var hann gífurlegt heljarmenni.

Hvað er til marks um það?  Það var sver járnkarl sem var hafður tii að rifa upp grjót. Hann beygði hann í boga í átökum. Ég get sagt þér að þegar þeir unnu saman að fjósbyggingu nokkurri Einar Sigurðsson, Oddur Magnússon, Ingimundur Árnason og Jón Þorsteinsson þá er engu við að líkja. Það voru ógurleg afköst. Ég var með þeim en það var eins og gestafluga það sem ég var. Þeir voru eins og jötnar.

Geturðu sagt mér frá fleiri verkalýðsfrömuðum?  Sighvatur Árnason, tengdasonur Einars á Kambi, var einn. Hann var faðir Björgvins á Ísafirði. Sigurjón Jónsson var annar. Hann var stuttur maður og digur, þrekmaður og kjarkmaður með afbrigðum. Hann lét sér ekkert fyrir brjósti brenna. Eitt sinn, eftir að togari Ólafs Jóhannessonar kom, var hann kominn með góðan afla og allir flykkjast ofan eftir. Þá liggur þar fyrir að allir – skuli fá vinnu nema Sigurjón Jónsson. Þá fór ég og fleiri, þessir verri menn, til Benedikts Einarssonar og sögðum að þetta væri nú ranglátt. Og hann féllst á það og sagði: „Þið skuluð koma inn með mér.“ Svo við fórum heim til Ólafs, og Benedikt sagði honum að ef Sigurjón fái ekki vinnu þá verði ekki skipað upp úr togaranum.

Nú, þá kom hann Ólafur og tók i mig og ýtti mér aftur að tröppunum. „Ólafur, ég vil nú fá að standa á fótunum, ég ræðst ekki á neinn“ segi ég. Jæja, þá lögðum við líka að honum að það væri ósanngjarnt að fara svona með Sigurjón. Faðir hans væri karlægur, móðir hans vesalingur og systir hans sjúklingur. Og hann væri eina fyrirvinnan. Það hafði engin áhrif. Og þá þykknaði i Benedikt þvi að hann var skapmaður. „Komið þið, við verjum það eins og við getum“, sagði hann. Nú kom það á daginn að ekkert var unnið fyrr en kom sendiboði ofan á bryggju og sagði að Sigurjón mætti fá vinnu i þetta skipti. Þá var allt laust. Sigurjón var settur hjá þegar kostur var á, bæði hann, Jenni Jónsson, Júlíus og Hermann Kristjánssynir og ég ásamt ein hverjum fleiri.

Eru einhver verkföll þér sérstaklega minnisstæð? Já, kolaverkfallið (áramótin 1929/1930) og ísverkfallið (jan. 1932). Í þeim voru mestu átökin og úr hvoru tveggja varð handalögmál. í kolaverkfallinu var verkfallsbrjótum safnað i nær-. liggjandi hreppum og átökin sköpuðust við að láta þá fara og koma ekki sinu fram, en i ísverkfallinu klofnaði verkalýðsfélagið og nokkur hluti af félögunum fór að vinna á móti sjálfum sér.

Segðu mér nánar frá kolaverkfallinu ?  Það var ekki verið að berjast fyrir gulli og grænum skógum heldur aðeins fyrir mat og að geta skýlt nekt sinni. Krafan var að fá 5 aura hækkun. Það gekk ekki og verkfall var boðað. Þá neitaði atvinnurekandinn okkur um kol. Það var eini eldiviðurinn i plássinu. Þá var enginn kostur að afla sér bjargar á nokkurn hátt eða elda ofan i sig. Þeir sem erfiðast áttu fengu að tína mola í kringum binginn því að kolin voru úti.

Nú var safnað mönnum á Barðaströnd og Rauðasandshreppi og átti ekki að líta við félögum úr verkalýðsfélaginu.  Þeir voru aðvaraðir fyrst að skipta sér ekki af þessu.en margir peirra önsuðu þvi ekki. Þeir komu upp að bryggjunni og bóndi nokkur sem ég vil ekki nefna var að rifa sig, sérstaklega við mig og Benedikt. Hann kastaði skó i mig upp á bryggju en hitti ekki. Þegar hann var kominn upp á bryggju og var að rifa kjaft i þvögunni þá tók Benedikt, því að hann var heljarmenni, i rassgatið á honum og herðarnar og henti honum i bátinn.
Þá espaðist hann um allan helming en svo fór að þeir urðu að fara heim rófubrenndir. Það var alvara að verja þannig lífsafkomu sina, að aðkomufólk fengi ekki að skipta sér af þessu.

Kröfurnar voru ekki til að hlaða gullkastala eins og nú gerist. Þær voru til að geta fengið eitthvað meir en var, geta bætt garmana á sér með einhverjum ráðum. Þær voru til þess. Á fullum rökum reistar. En það voru engar sérkröfur og engir hótelmenn.

Hvernig leystist verkfallið?  Við skutum á fund og buðum Olafi að koma. Hann kom, því að fiskurinn þurfti að komast i burt. Það var lífsnauðsyn fyrir reksturinn. Þegar hann kom var hann sífellt vitnandi i guð.
En það fór svo að Benedikt sagði við hann: „Það er best að vera ekkert að tala um þetta lengur. Þú skalt bara fara heim og sjóða fiskinn við kolin þin“, þvi að Ólafur bannaði öllum kol. Nú, um kvöldið var samið.

Þá er það ísverkfallið. Aðal vetrarvinnan og lífsbjörgin var ístakan á tjörninni á Vatnseyri sem nú er orðin að höfn. Við vorum að semja fyrir verkalýðsfélagið og gerðum þá kröfu að fara úr 90 aurum upp i krónu á timann. Þá var það einn maður, Árni Gunnar, sem var fyrsti formaður verkalýðsfélagsins, sem tók verkið að sér í ákvæðisvinnu og réði menn til sin fyrir 90 aura á tímann en við vorum að fara fram á krónu.

Árni Gunnar var náfrændi Ólafs Jóhannessonar. Svo klofnaði félagið um þetta og það var mest kvenfólkið sem fylgdi honum eins og vísan sú arna lýsir:
Gunnars ekki er fylgi fátt, fimmtíu pilsvargar. Hefur enginn hani átt, hænur svona margar.

Við í meirihluta félagsins vöktum yfir þessu dag og nótt og veltum vögnum út af sporunum. Þá kom Hannibal að norðan. Hann var þá orðinn formaður Baldurs. Og það voru vikutilraunir að sætta saman félögin aftur. Svo lánaðist það og eftir það hefur það ekki klofnað.
Hitt má segja um Árna Gunnar, bæði dauðan og lifandi, hann var snyrtimenni á margan hátt og hann var tryggur og áreiðanlegur. En það kom bara þetta í hann að vinna með frænda sinum. Það var eilífðar skáldskapur um þetta Árni Gunnar aumur var, undan mátti hopa, fór í arma Framsóknar að fá sér hjarta dropa.

Geturðu sagt mér frá einhverjum skemmtilegum fundi í verkalýðsfélaginu?   Ég man nú engan skemmtilegri en þann þegar við lokuðum hreppsnefndina inni. Hún var búin að lofa að reyna að hafa áhrif á aukna atvinnu, annaðhvort i gegnum atvinnurekendur eða þá að hún réði i það sjálf. Það gekk á ýmsu og aldrei var hreyft við neinu. Við sýndum fram á að þegar engin úrræði væru til að lifa. þá mundum við heldur slaka til að einhvurju litlu leyti á tímalaununum gegn því að fá einhverja atvinnu. Við fengum engin svör á endurtekin bréf.

Svo að við buðum Jónasi Magnússyni oddvita bréflega að koma á verkalýðsfund með nefndina með sér. Hún var siðan lokuð inni og fékk ekki að fara út fyrr en hún fyllti upp loforðið sem hún var búin að gefa en ætlaði að hunsa. Það voru 7 dyraverðir en i hreppsnefndinni voru 7 menn.
Var hún lengi lokuð inni?  Það var feiknar tími. Fundurinn var boðaður klukkan 3 en kl. 2 um nóttina var enginn kominn heim. Þá sögðu þeir: „Lofið okkur út’.“ -Það var neikvætt.

Þeir fengu ekki að fara út fyrir en loforðið kom. Þá var það sem þeir hlutuðust til um að farið var að draga grjót á sleða ofan úr Urðunum og búinn til hólmi i tjörninni, sem varð varphólmi á sinum tíma, en er nú horfinn. Þetta var dálítil bót þó að sumir væru nú settir hjá.

Bjóstu ekki á Flateyri um tíma?   Ég var eitt ár á Flateyri. Það gerði síldin. Þá voru einhverjar stærstu hörmungar hér í atvinnu málum. Svo hrundi þar líka. Síldin hætti. Það hefur verið erfitt að draga fram lífið þá. Það var agalegt. Það er mikið mál. Og ýmsir misstu kjarkinn og var sundrað. Það var Guðmundur Jónsson sem átti heima hér. Hann átti að flytja hreppaflutningi i Tálknafjörð. Hann langaði svo til að komast suður að ég vann það til fyrir hann að fara um dimma nótt í þreifandi byl norður i Hvestu og hafði aldrei farið þá leið fyrr.
Upp á Björgunum fór ég en vissi ekki að vegurinn lá undir. Þar hef ég séð hættuna mest á ævinni. Ég hrapaði, stoppaði á brúninni, klóraði mig svo upp á lif og dauða upp aftur og fram hjá þessari hættu. En það hefði munað að hann kæmist ekki suður. Hann hefði farið norður.

Ég man eftir mörgu. Ég man eftir orðalagi Ólafs Jóhannessonar: „,Ég get ekki hjálpað honum.“ „Þá getum við það Ólafur, þó að við séum fátækir“, og við gerðum það. Það var yfirnáttúrulegt hvað mikla þrælmennsku var hægt að sýna þessum tryggu þjónum sem höfðu verið um margra ára skeið.
Ég man eftir þessu gamla fólki, Sigriði Magnúsdóttur, Guðrúnu Dagsdóttur, Sólbjörgu og fleirum, sem ég gæti nefnt, sem áttu óheyrilega bágt. Þá var hreppaflutningurinn i algleymingi. Svona var nú meðferðin.
Já, það er rétt sem segir þar: Fyrirlítur hún fátækan fallega dansar kella Og það er líka fleira um það: Hvar þú finnur fátækan á förnum vegi, gerðu honum gott, en grættu hann eigi. Guð mun launa á efsta degi.

En ég hef enga trú á hans launum. Ég er svo hreinskilinn, ég játa það. Hvað sem kann að vera um allan þann mátt, þá finnst mér hann allur ótrúlegur og öfgafullur. Ég fer ekkert til Himnaríkis. Það máttu láta fara hvar sem er. Ég er svo sannfærður um það. Það eru blekkingar, óþarfa blekkingar.
Hvert heldurðu að þú farir þá?   Ég fer i jörðina úr því að ég slapp við sjóinn. Mínir nánustu ættingjar hafa farið í sjóinn, fleiri en einn. Það er ekki annað. Þetta er ekki til neins. Við eigum engan kost á því að vera eilífir og ódauðlegir. Og þess vegna er ekki til neins að fara með það sem er ósannanlegt.

Ég kann eina vísu sem mér er dýrmæt. Hún er þannig: Vinnu og greiða það veist þér skylt, varkár, djarfur, glaður, ef að þú í veröld vilt verða gæfumaður. Það hefur oltið á ýmsu. Stundum hefur sólin skinið en stundum myrkrið lokað öllu. Og það er margt sem maður dylur i pokahorninu ef maður vildi það láta fara.

Ljóðskáldið Jón úr Vör var fóstursonur Þórðar Guðbjartssonar og tileinkaði hann Þórði ljóðabók sína Þorpið, enda er hans víða getið þar í ljóðum Jóns.

Ritstjórn Fréttatímanns

Fréttatíminn er óháður miðill.

Má bjóða þér að styrkja óháða blaðamennsku?

Hefur þú áhuga á að hjálpa Fréttatímanum að vaxa og dafna?
Með því að styrkja Fréttatímann stuðlar þú að frjálsri og óháðri umfjöllun.

Styrkir fara í gegnum Paypal og eru í Bandaríkjadollar. Unnið er að því setja upp styrki í íslenskri mynt.