Aðsendar greinarViðskiptiJim Ratcliffe má ekki eiga 1% en tuttugu mega eiga 71%

Ritstjórn Fréttatímanns2 vikur síðan14 min

 

,,Mín trú er að við þurfum ekki að vera hrædd við vonda kalla í útlöndum, við þurfum örugglega ekki að líta svo langt“

Jim Ratcliffe ætlar að hlúa að laxveiðiám

Í fréttaskýringarþættinum Kveik á RÚV, var fjallað ítarlega um ríkan áhugamann um íslenska náttúru, að nafni Jim Ratcliffe. Sem eignast hefur um 40 jarðir á Norðausturlandi. Manni fannst sem áhorfanda að leiðangurinn hefði verið farinn til þess að ,,taka manninn niður“ eins og er lenska hér á landi í sumum tilfellum. Svona þegar það hentar. Farið er á milli bæja og rætt um Jim Ratcliffe og kaup hans á jörðum í sveitinni. Allavega ansi sérstakt eitthvað. 

Jón Gunnarsson, f.v. frkv.stj.

Þjóðin heldur vart vatni yfir þeim „hörmungum“ sem þessi maður á að hafa gert af sér, og lýst er mikilli vanþóknun á þessum stórkostlegu yfirráðum hans sem nema um 1% af íslenskri jörðu.

Þingmenn, ráðherrar og almúginn vill með öllum mögulegum ráðum koma í veg fyrir að þessum útlendingi takist það ætlunarverk sitt sem hann segist standa fyrir, þ.e. að vernda íslenska laxinn. Hví er ekki kvóti á sölu á rándýrum, seldum veiðistöngum í ám landsins? Hvað gera aðrir veiðiréttahafar til að vernda laxinn fyrir utan að neyða viðskiptavinina til að sleppa særðum fiskum aftur í árnar? Kannski er kominn tími til að afgræðgisvæða bransann? Og jafnvel kannski hægt að læra eitthvað af Jim Ratcliffe?

Erlendum auðhringum veittur ókeypis aðgangur að hreinum fjörðum og flóum landsins til að menga þá

Sömu þingmenn og ráðherrar sem eru á móti þessum áformum Jim Ratcliffe,  gera allt til að tryggja erlendum auðhringum, mest frá Noregi, ókeypis aðgang að hreinum fjörðum og flóum landsins. þar mega þeir ala frjóan lax af erlendum stofnum, menga og skemma íslenska náttúru með skít og lyfjum. Þúsunda ára þróun verður fórnað fyrir stundarhagsmuni auðhringa. Sem eigendur nánast alls laxeldis á Íslandi, fer allur hagnaður 100% úr landi svona eins og hjá stóriðjunni sem fær gefins rafmagn, jarðgöng, hafnir og fleira.

Ég get ekki með neinu móti séð að blessaður maðurinn, Jim Ratcliffe, sem ég þekki ekki neitt, hafi framið glæp. Það var ekki hægt að klína neinum glæp á hann heldur í ítarlegri rannsókn í tölvum og á vettvangi. Hann er e.t.v. réttur maður á röngum stað?

Mér finnst það hinsvegar vera glæpur að eyðileggja laxastofna og laxveiðiár landsins. Mér finnst líka glæpur að menga firði og flóa landsins. Mér finnst það vera glæpur, þegar óafturkræfar skemmdir eru gerðar á náttúru landsins og leyfðar og þar eru svo margir sekir og meðsekir. Þó ekki Jim Ratcliffe.

Bent er á að kvótakerfið fari illa með auðlindir sjávar, fiskistofnarnir hafa ekki náð að vaxa neitt í núverandi 35 ára kvótakerfi. Margir glæpir hafa verið framdir þar á undanförnum áratugum ef marka má fréttaskýringaþætti eins og Kompás og fleiri.

Tuttugu fyrirtæki mega eiga þar 71% af auðlind þjóðarinnar og kerfið sem þar er unnið eftir skilar engum árangri í að hlúa að fiskistofnum svo þeir dafni eða standi í stað.  Jim Ratcliffe sem er að hlúa að laxveiðiám og byggja þær upp, ólíkt því sem öðrum gengur til, má alls ekki eiga 1% af auðlindum landsins.

Kannski mega 20 íslensk útgerðarfyrirtæki líka eiga 71% af jörðum landsins, eins og yfirráð þeirra er yfir sjávarauðlindum þjóðarinnar? Mín trú er að við þurfum ekki að vera hrædd við vonda kalla í útlöndum, við þurfum örugglega ekki að líta svo langt.

Nafn
Brim hf. 37.693 t 9,24%
Samherji Ísland ehf. 24.700 t 6,06%
FISK-Seafood ehf. 22.103 t 5,42%
Þorbjörn hf 22.081 t 5,42%
Útgerðarfélag Reykjavíkur hf. 18.877 t 4,63%
Vísir hf 17.997 t 4,41%
Vinnslustöðin hf 16.350 t 4,01%
Rammi hf 16.265 t 3,99%
Skinney-Þinganes hf 16.167 t 3,97%
Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf 14.637 t 3,59%
Nesfiskur ehf 13.435 t 3,29%
Síldarvinnslan hf 12.342 t 3,03%
Bergur-Huginn ehf 10.570 t 2,59%
Ísfélag Vestmannaeyja hf 9.598 t 2,35%
Útgerðarfélag Akureyringa ehf 9.533 t 2,34%
Jakob Valgeir ehf 7.572 t 1,86%
Ögurvík hf 5.683 t 1,39%
Guðmundur Runólfsson hf 4.674 t 1,15%
Hraðfrystihús Hellissands hf 4.662 t 1,14%
K G fiskverkun ehf 4.528 t 1,11%
Samtals: 289.466 tonn  71 %

Ritstjórn Fréttatímanns

Fréttatíminn er óháður miðill.